Til dýralækna: Sækja skal um leyfi til sölu lyfja til nota handa dýrum fyrir 31. ágúst nk.

Rafrænt eyðublað nú aðgengilegt á „mínum síðum“ Lyfjastofnunar. Einnig skal dýralæknir  tilkynna Lyfjastofnun ef hann ætlar ekki að selja lyf áfram.

Dýralæknir skal sækja um sérstakt leyfi til sölu lyfja sem ætlunin er að nota handa dýrum fyrir 31. ágúst 2021, sbr. 35. gr. lyfjalaga nr. 100/2020, eða tilkynna Lyfjastofnun um að hann áætli ekki að selja slík lyf áfram. Núverandi leyfi dýralækna til sölu slíkra lyfja halda gildi sínu til 31. desember 2021.

Samkvæmt 35. gr. lyfjalaga er Lyfjastofnun heimilt að veita dýralæknum leyfi til að selja lyf sem ætlunin er að nota handa dýrum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum:

  1. Þeir hafi gilt starfsleyfi dýralæknis hér á landi sbr. lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr,
  2. Þeir hafi tilkynnt Matvælastofnun að viðkomandi hafi hafið dýralæknastörf sem og um aðsetur starfseminnar.

Leyfi dýralækna til að selja lyf sem ætlunin er að nota handa dýrum takmarkast við sölu og afhendingu eftirtalinna lyfja vegna dýra sem viðkomandi dýralæknir hefur til meðferðar:

  1. Lausasölulyf fyrir dýr
  2. Lyfja sem ávísað er af dýralækni, sbr. reglugerð nr. 539/2000 um heimildir dýralækna til að ávísa lyfjum, með síðari breytingum

Rafrænt eyðublað

Á „mínum síðum” Lyfjastofnunar er nú rafrænt umsóknareyðublað til að sækja um leyfi dýralæknis til að selja lyf sem ætlunin er að nota handa dýrum.

Ef dýralæknir áætlar ekki að selja lyf áfram skal hann senda tilkynningu þess efnis til Lyfjastofnunar á netfangið [email protected] fyrir 31. ágúst 2021.

Síðast uppfært: 19. febrúar 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat