Tillögur starfshóps heilbrigðisráðherra

Skýrsla starfshóps heilbrigðisráðherra um ráð til að sporna gegn mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja var birt í síðustu viku. Þar eru settar fram tillögur sem talið er að stemmt geti stigu við fíknivanda sem tengist lyfseðilsskyldum lyfjum. -Hér er sérstaklega beint sjónum að því úr skýrslunni sem snýr að útgáfu lyfseðla og afhendingu lyfja.

Staða mála
Í skýrslu starfshópsins er vitnað til umfjöllunar eftirlitsmiðstöðar Evrópusambandsins um misnotkun lyfja (EMCDDA) frá síðasta ári þar sem  segir að sífellt aukist misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja. Þetta gerist á Íslandi eins og annars staðar, og að sumu leyti í meira mæli hér en í nágrannalöndunum. Þannig hefur notkun ópíóíða aukist undanfarin ár á Íslandi meðan hún hefur dregist saman annars staðar á Norðurlöndum, og þeim fjölgaði hér á árunum 2016 og 2017 sem nota ópíóíða í æð. Þetta vekur ugg, sérstaklega ef litið er til þess faraldurs dauðsfalla vegna ópíóíða sem Bandaríki Norður-Ameríku standa frammi fyrir í dag. Því er brýnt að leita sem fyrst leiða til að stemma stigu við þessari þróun.

Tillögur
Tillögur starfshóps heilbrigðisráðherra lúta að ýmsum þáttum sem gætu orðið til að sporna gegn fíknivanda tengdum lyfseðilsskyldum lyfjum. M.a. fræðslu til fagstétta og almennings, aðgengi að ávanabindandi lyfjum, og eftirlit með ávísanavenjum lækna

Ávísanavenjur
Hvað varðar tilhneigingu í útgáfu lyfjseðla segir í skýrslunni að íslenskir læknar hafi ekki verið nægilega duglegir að tileinka sér góðar ávísunarvenjur. Þeir hafi heldur ekki fengið til þess nægilegan stuðning frá heilbrigðisyfirvöldum. Starfshópurinn mælir með að Embætti landlæknis verði falið að gefa út leiðbeiningar um ávísanir á lyf sem geta valdið ávana og fíkn. Æskilegt væri að byggja þær á dönskum leiðbeiningum sem hópurinn fékk leyfi til að þýða og staðfæra,  og kynna þær fyrir læknum og læknanemum í samráði við Læknafélag Íslands og Háskóla Íslands.  

Aðgengi takmarkað
Starfshópurinn vísar til leiðbeininga EMCDDA sem telur nauðsynlegt að takamarka aðgang að ávanabindandi lyfjum, og tekur það upp í sínum tillögum. Sjónum er t.a.m. beint að því hverjir ávísa lyfjum, en í tölum Lyfjastofnunar og Embættis landlæknis hefur komið fram að miklum hluta ávanabindandi lyfja er ávísað af læknanemum með tímabundið starfsleyfi. 

Hópurinn mælir með að:

 

  • Ávanabindandi lyfjum sé ekki ávísað af læknanemum með tímabundið starfsleyfi.
  • Ávanabindandi lyfjum sé almennt ekki ávísað eftir símaviðtal og þau ekki sett í vélskömmtun nema brýn nauðsyn krefji og með góðri eftirfylgni. Vélskömmtun getur þó verið gagnleg til að stilla skömmtun og notkun í hóf eða til að þrepa (trappa) niður þolmyndandi lyf.
  • Sterkum verkjalyfjum sé ávísað að hámarki í fimm daga á bráðamóttöku og læknavakt.
  • Upplýst sé um að leyfilegt sé að rjúfa pakkningar.
  • Meðferð með nýju lyfi sé ávallt ávísað í minnstu pakkastærð.

 

Rafrænt umhverfi getur auðveldað eftirlit og aukið árvekni
Þróun rafræns umhverfis býður upp á mörg tækifæri til að koma í veg fyrir eða draga úr misnotkun, segir í skýrslunni.

Hópurinn mælir með því að:

 

  • Greiningargögn læknis séu aðgengileg ef þeirra er óskað af Sjúkratryggingum Íslands þegar sótt er um lyfjaskírteini
  • Forrita fyrir gildandi skilyrðum og takmörkunum vegna útgáfu og afgreiðslu lyfjaávísana í tölvukerfum lækna og apóteka. 
  • Ávísandi læknar fái sjálfvirkar viðvaranir úr rafrænum kerfum ef sami einstaklingur fær bæði geðlyf og ávanabindandi lyf og ef lyfjanotkun/lyfjafjöldi í tilteknum flokkum hefur farið yfir skilgreind mörk. 
  • Forrita fyrir að fyrsta val umræddra lyfja á lyfjaávísun verði ávallt minnsta pakkning. 
  • Opna aðgang að lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis fyrir hjúkrunarfræðinga og lyfjafræðinga sem koma að lyfjameðferð sjúklinga eða eftirfylgni með henni.  

 

Nýrri reglugerð ætlað að takmarka lyfjamagn til afhendingar hverju sinni
Vonir standa til að ný reglugerð um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja dragi úr misnotkun og læknarápi með þeim breytingum á rafrænu umhverfi sem reglugerðin gerir ráð fyrir. Reglugerðin er enn í vinnslu eftir að síðustu drög voru lögð fyrir til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda. Reglugerðinni er ætlað að taka gildi 1. júlí næstkomandi. Þar er m.a. gert ráð fyrir að aðeins verði heimilt að afgreiða 30 daga skammt eftirritunarskyldra lyfja í senn, og að ekki verði heimilt að leysa út næsta skammt fyrr en liðnir eru að minnsta kosti 25 dagar frá síðustu afgreiðslu. Þá verður óheimilt að ávísa ávana- og fíknilyfjum á pappírslyfseðli eftir 1. september 2018.

Könnun um misnotkun háskólanema á örvandi lyfjum
Í skýrslu starfshópsins er vitnað til könnunar frá í mars sl. sem bendir til þess að all stór hópur háskólanema noti örvandi lyf til að minnka svefnþörf og bæta námsárangur. Það bendi til þess að auðvelt sé að verða sér út um þessi lyf með eða án lyfseðils og að misnotkun lyfjanna sé algeng hjá ungu og heilbrigðu fólki. -Nánar verður sagt frá niðurstöðu þeirrar könnunar hér á vef Lyfjastofnunar síðar. 

Síðast uppfært: 29. maí 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat