Umsögn Lyfjastofnunar um frumvarp til breytingar á lyfjalögum  

Meginatriði umsagnarinnar tengjast aðgengi almennings að lausasölulyfjum

Nýlega var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum nr. 100/2020 hvað varðar lausasölulyf. Óskað var eftir umsögn Lyfjastofnunar um frumvarpið. Með umsögn sinni varpar Lyfjastofnun ljósi á ákveðin umhugsunarefni varðandi frumvarpið en mælir hvorki með eða á móti því.

Í huga margra er e.t.v. ekki mikill munur á því að kaupa lausasölulyf í apóteki og kaupa matvöru eða fæðubótarefni í almennri verslun. Ólíkt almennum vörum í verslun innihalda lyf efni sem öll krefjast varúðar við meðhöndlun og notkun með öryggi neytenda að leiðarljósi.

Markmið lagafrumvarpsins virðast að mestu byggja á sjónarmiðum um aukið aðgengi lausasölulyfja og áherslu á að þau verði seld sem víðast. Vert er að hafa í huga að slík framkvæmd gengur þvert á markmið lyfjalaga og lýðheilsustefnu stjórnvalda.

Aðgengi að sölustöðum lyfja er mikið á höfuðborgarsvæðinu og telur Lyfjastofnun það fullnægjandi. Hafa ber í huga að þó að aðgengi að útsölustöðum víða á landsbyggðinni sé með öðrum hætti og minna, er póst- og netverslun með lyf heimil. Auk þess hefur Lyfjastofnun heimild til að veita undanþágu til að selja tiltekin lausasölulyf í almennum verslunum sem eru a.m.k. 20 km frá næsta apóteki eða lyfjaútibúi. Verði frumvarpið samþykkt kann sú staða að koma upp að velta lyfjabúða og lyfjaútibúa á landsbyggðinni minnki sem gæti leitt til þess að þjónusta þar skerðist.

Lyfjastofnun leggur til að breytingin verði eingöngu látin ná til landsbyggðarinnar þar sem verra aðgengi er að lyfjum og að lyfsöluleyfishafar sem þegar sinna og þekkja lyfsölu komi að henni. Ef frumvarpið verður samþykkt hefur Lyfjastofnun boðið fram aðstoð við útfærslu breytinganna í samráði við hagsmunaaðila. Að auki lýsir stofnunin sig reiðubúna til að senda fulltrúa á fund velferðarnefndar til að skýra afstöðuna enn frekar sé þess óskað.

Umsögn Lyfjastofnunar á vef Alþingis

Síðast uppfært: 10. nóvember 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat