Vandi vegna lyfjaskorts aukist síðustu ár

Í byrjun nóvember birtu Evrópusamtök sjúkrahúslyfjafræðinga, EAHP, niðurstöður könnunar þar sem spurt var um lyfjaskort. Sjúkrahúslyfjafræðingum víðs vegar að úr Evrópu var boðið að taka þátt í könnuninni og var hún viðameiri en sú sem samtökin stóðu fyrir árið 2014. Tæplega sautján hundruð svör bárust frá 38 löndum, hátt í þrisvar fleiri svöruðu nú samanborið við fyrri könnun, en fjöldi svarenda var nokkuð mismunandi eftir spurningum. Níu íslenskir sjúkrahúslyfjafræðingar sendu inn svör.

Könnunin
Hægt var að svara könnuninni frá síðari hluta mars og fram í júní á þessu ári. Markmiðið með henni var að fá nýjustu upplýsingar um mat sjúkrahúslyfjafræðinga á því, í hve miklum mæli lyfjaskortur hefur áhrif á störf þeirra og þjónustu við sjúka.

Aukinn vandi
Niðurstöður könnunarinnar nú bornar saman við þá fyrri sýna að vandi vegna lyfjaskorts á sjúkrahúsum hefur aukist talsvert. Árið 2014  svöruðu tæp 83% því að glímt væri við lyfjaskort á þeim tíma sem könnuninni var svarað, en í ár var það hlutfall komið upp í tæp 92%.

35% sjúkrahúslyfjafræðinga glíma daglega við lyfjaskort
Í könnuninni var spurt hversu oft væri uppi vandi vegna lyfjaskorts í sjúkrahúsapótekum. Flestir sögðu að slíkt kæmi upp vikulega, eða 38%, en sláandi margir lyfjafræðingar segjast glíma daglega við lyfjaskort, 35%. Dæmigerð bið eftir lyfi sem hefur vantað virðist vera um 2,2 mánuðir miðað við svör lyfjafræðinganna, og fimm klukkustundum á viku sé varið til að leita lausna vegna lyfjaskorts.

Oftast sýklalyf
Fram kemur í niðurstöðum að sýklalyf virðast vera þau lyf sem oftast skortir; 77% svarenda nefna slík lyf. Þar á eftir koma bóluefni sem 43% nefna, og krabbameinslyf voru nefnd af 39%. Rúmur helmingur svarenda segist telja að lyfjaskortur tefji meðferð, fjórðungur nefndi að mistök verði í lyfjagjöf vegna skorts, og greint var frá 12 dauðsföllum af völdum lyfjaskorts í könnuninni. Á hinn bóginn segja 78% svarenda að langoftast eða alltaf sé hægt að bjóða upp á meðferð með lyfi sambærilegu við það sem skorti.

Persónuleg reynsla í tengslum við skort
Sjúkrahúslyfjafræðingar lýsa í könnuninni persónulegri reynslu sinni af lyfjaskorti og gjarnan er nefnt að lyfjafyrirtækin sinni ekki upplýsingagjöf sem skyldi. Upplýsingar um fyrirsjáanlegan lyfjaskort berist t.d. of seint þegar þær berist á annað borð.

Hvernig heilbrigðiskerfin taka á lyfjaskorti
Spurningunni um hvort eitthvert ferli taki við þegar lyf skortir á markað, var svarað með all mismunandi hætti eftir löndum. Fleiri en tveir af hverjum þremur sögðu þó að eitthvert slíkt ferli væri til í heimalöndum þeirra, en aðeins 56% fannst það nægilega skilvirkt.

Lyfjastofnun hefur brugðist við skorti með frekari úrræðum
Lyfjastofnun hefur síðustu mánuði unnið að ýmsum úrbótum til að koma í veg fyrir eða milda þau áhrif sem lyfjaskortur getur haft á lyfjanotendur. Fyrr á þessu ári var komið á laggirnar vefsíðu þar sem fjallað er um lyfjaskort og gerð grein fyrir mörgum þeirra lyfja sem tímabundið eru ekki fáanleg. Þá var nýverið opnuð sérstök gátt með hnappi á forsíðu þar sem almenningur getur tilkynnt um lyfjaskort, og um sama leyti var markaðsleyfishöfum gert að tilkynna Lyfjastofnun um lyfjaskort. Í nóvember sl. voru einnig rýmkaðar reglur um afgreiðslu undanþágulyfja í því skyni að draga enn frekar úr óþægindum og vanda sem hljótast kunni af lyfjaskorti.

Könnun EAHP um lyfjaskort á sjúkrahúsum

Síðast uppfært: 25. apríl 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat