Vegna atviks á skoðunarbekk á læknastofu

Eins og fram hefur komið í fréttum var tveggja ára stúlka hætt komin þegar höfuð hennar klemmdist milli tveggja rafknúinna arma á skoðunarbekk á læknastofu fyrir tæpri viku. Lyfjastofnun barst formleg atvikatilkynning um málið frá eiganda skoðunarbekksins. Sérfræðingar Lyfjastofnunar fóru í kjölfarið í eftirlitsheimsókn til eigandans vegna tilkynningarinnar. Stofnunin hefur eftirlit með lækningatækjum, öryggi þeirra, viðhaldi og notkun, sbr. lög nr. 16/2001 um lækningatæki.

Skyldur framleiðenda, eigenda og notenda lækningatækja
Vert er að vekja athygli á að lækningatækjum skulu fylgja leiðbeiningar um örugga notkun tækisins, það eru skyldur framleiðandans. Leiðbeiningar skuli eftir því sem við verði komið tilgreindar á tækinu sjálfu og/eða á umbúðum þess.

Eigandi lækningatækis ber ábyrgð á réttri notkun þess, hæfni notandans, sem og að sjá um að viðhaldi og viðgerðarþjónustu sé sinnt af þar til bærum aðilum. Þá skal á það bent að öllum þeim sem framleiða, selja, eiga eða nota lækningatæki og vita um frávik, galla eða óvirkni, sem kynni að valda eða hefur valdið heilsutjóni eða dauða notanda, ber skylda til að tilkynna Lyfjastofnun um slíkt.

Um lækningatæki á vef Lyfjastofnunar

Síðast uppfært: 5. október 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat