Vegna fréttaflutnings af aðgengi fatlaðs fólks að lyfjum

Lyfjastofnun harmar þau tilvik sem upp hafa komið og mun halda áfram vinnu til að tryggja að fatlað fólk fái lyfin sín án vandkvæða.

Með vísan til fréttaflutnings síðastliðinna daga um vandræði aðstandenda fatlaðs fólks við að fá lífsnauðsynleg lyf afhent í apótekum harmar Lyfjastofnun þau tilvik sem greint hefur verið frá og hafa valdið fötluðu fólki óþægindum að nauðsynjalausu.

Á síðasta ári tók gildi ný reglugerð um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja. Í reglugerðinni er að finna nýtt ákvæði um umboð sem gerir einstaklingum kleift að sækja lyf fyrir aðra en sjálfa sig í apótek. Ákvæðinu er ætlað að tryggja í sessi verklag sem hefur það að markmiði að fyrirbyggja að einstaklingar villi á sér heimildir og verði sér út um lyf annarra í apótekum. Samskonar fyrirkomulag er viðhaft í nágrannaríkjum okkar, t.a.m. Noregi.

Lyfjastofnun varð það ljóst strax í upphafi að framkvæmd þessara nýju reglna yrði að taka mið af aðstæðum ákveðinna hópa í samfélaginu, þ. á m. fatlaðs fólks sem hvorki getur sótt lyfin sín sjálft í apótek né veitt umboð. Lagði Lyfjastofnun upp með að komið yrði til móts við þarfir þessa hóps með tvenns konar hætti. Annars vegar að hægt væri að nýta heimsendingaþjónustu apóteka, þar sem lyf eru þá afhent á heimili viðkomandi einstaklings og umboðs ekki þörf. Hins vegar að lyfjafræðingar í apótekum nýttu heimild sem umrædd reglugerð hefur að geyma þar sem leyfilegt er að víkja frá kröfu um umboð þegar sérstaklega stendur á. Leiðir þessar urðu fyrir valinu að höfðu samráði við heilbrigðisráðuneytið, miðstöð rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis og yfirmann réttindagæslumanna fatlaðs fólks. Frá gildistöku reglugerðarinnar á síðasta ári hefur Lyfjastofnun áréttað reglulega til allra apóteka í landinu að umræddar lausnir skuli nýttar þegar áður nefndar aðstæður eru fyrir hendi.

Þess má geta að upplýsingar á vef Lyfjastofnunar hafa verið uppfærðar til að skýra umboðsmálin nánar.

Ljóst er að tryggja þarf að fatlað fólk fái ávallt lyfin sín og kerfislægur vandi sé þar ekki hindrun. Samvinna Lyfjastofnunar, miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis og réttindagæslu fatlaðs fólks til að tryggja til frambúðar farsæla lausn fyrir fatlað fólk stendur enn yfir.

Síðast uppfært: 11. febrúar 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat