Verkefni sem varða iðnaðarhamp flytjast til Matvælastofnunar

Höfðu verið í umsýslu Lyfjastofnunar um skeið

Á síðasta ári veitti heilbrigðisráðherra Lyfjastofnun undanþáguheimild með breytingu á reglugerð um ávana- og fíkniefni til þess að heimila innflutning fræja til ræktunar iðnaðarhamps, en eftir því hafði lengi verið kallað. Breyting reglugerðarinnar fól í sér að heimilt var að flytja inn fræ einnar tegundar kannabisplantna, Cannabis sativa.

Heimildin frá 2020 var háð ákveðnum skilyrðum þannig að tryggt væri að ekki yrðu fluttar inn eða ræktaðar plöntur sem innihéldu hærra magn en 0,20% af vímuefninu THC. Ráðherra lagði áherslu á að reglugerðarbreytingin væri tímabundin ráðstöfun.

Nú hefur ákvæðið um undanþáguheimild Lyfjastofnunar vegna innflutnings fræja til ræktunar iðnaðarhamps verið fellt brott úr reglugerð um ávana- og fíkniefni. Ný reglugerð hefur verið sett af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem mælt er fyrir um skilyrði fyrir innflutningi fræja af tegundinni Cannabis sativa, í þeim tilgangi að rækta iðnaðarhamp. Matvælastofnun hefur eftirlit með því að ákvæðum þeirrar reglugerðar sé framfylgt í samræmi við lög nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Þar með hafa verkefni sem tengjast iðnaðarhampi verið flutt frá Lyfjastofnun yfir til Matvælastofnunar.

Síðast uppfært: 13. júlí 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat