Verklag við móttöku og förgun lyfja

Lyfjum skal skila í apótek

Afar
mikilvægt er að afgangslyfjum sé skilað í apótek til eyðingar, en ekki hent í
ruslið eða skolað niður í vask eða klósett. Þannig geta þau haft skaðleg áhrif
á lífríki og vistkerfi. Hætturnar sem fylgja því að eiga lyf heima sem ekki er
þörf fyrir eru fleiri. Börn eða gæludýr gætu komist í lyfin fyrir slysni, þau
gætu lent í röngum höndum og svo mætti lengi telja. Öruggast er að fara með þau
lyf sem ekki er not fyrir til eyðingar í næsta apótek. 

Glærir pokar - öryggi starfsfólks

Þess
er óskað að lyfjum sé skilað í glærum pokum. Þetta er gert með öryggi
starfsfólks apóteka í huga, sem ætti þar með auðveldara með að sjá hvort
óæskilegir hlutir hafi slæðst með í pokanna, t.d. sprautunálar. Sprautunálum á
að skila í lokuðum umbúðum. Slíkar umbúðir er hægt að fá í apótekum. 

Hverjir handleika lyf sem er skilað til apóteka?

Tekið er á móti
lyfjum sem ekki er lengur þörf fyrir hjá öllum apótekum á landinu,
einstaklingum að kostnaðarlausu, í samræmi við reglugerð um lyfjaávísanir og
afhendingu lyfja. Þar er ekki gert ráð fyrir að lyf sem skilað er til apóteka
séu skráð. Slík skráning væri í mörgum tilvikum óframkvæmanleg, t.d. þegar
skilað er umbúðalausum töflum í poka sem ekki er vitað hvers eðlis eru. Í öðrum
tilfellum væri skráningin tilgangslaus nema ef talið væri á móti til tryggingar
því að réttu magni hafi verið fargað.

Starfsfólki
apóteka er treyst til að afgreiða lyf, að umgangast þau rétt í apótekinu, og
hið sama gildir einnig hvað varðar móttöku lyfja sem er skilað til eyðingar.
Ekki er skylda að kalla eftir sakavottorði þegar starfsmaður er ráðinn í apótek
en margir lyfsöluleyfishafar gera slíkt engu að síður. Varðandi ytra öryggi þá
er skylt að hafa öryggiskerfi og þjófavörn í apótekum. Líkt og fram kom í þætti
Kveiks á RÚV 2. apríl, hefur Lyfjastofnun ekki ástæðu til að ætla að verklag í
apótekum sé ekki samkvæmt lögum og reglum. Mikilvægt er að tilkynna til Lyfjastofnunar
ef viðskiptavinir apóteka verða varir við verklag í apótekum sem þeir telja að
brjóti í bága við lög og reglur. Stofnunin rannsakar þá málið og fylgir því
eftir ef ástæða er til. 

Eftirlit með starfsemi apóteka

Í
apótekum er innra eftirlit m.a. með hitastigi í lyfjageymslum og móttöku lyfja
frá viðskiptavinum til eyðingar. Lyfsöluleyfishafi sinnir því eftirliti og ber
ábyrgð á farið sé að reglum og tilmælum. Lyfjastofnun kemur reglulega í
eftirlitsferðir í apótek þar sem hlutirnir eru skoðaðir á staðnum og auk þess
eru lögð fram gögn sem sýna fram á innri eftirlit apóteksins.

Fyrirtækin sem heimild hafa til að annast flutning og förgun

Þrjú
fyrirtæki hafa leyfi Umhverfisstofnunar til að taka á móti lyfjum til eyðingar:
Efnarás (áður Hringrás), Efnamóttakan Hafnarfirði og Íslenska gámafélagið. Þau sjá
um að koma lyfjunum til fyrirtækisins Kölku á Suðurnesjum, en það er eina
fyrirtækið sem hefur heimild Umhverfisstofnunar til eyðingar lyfja. Starfsmennn þess fyrirtækis sem sjá um móttöku
og flutning lyfjanna fylgjast síðan með að þau skili sér í brennsluofn Kölku. 

Ekki hægt að selja aftur lyf sem skilað er í apótek

Lyf
sem hafa farið út úr apóteki er ekki hægt að selja aftur. Slíkt gildir jafnvel
þótt pakkningar lyfsins séu órofnar. Þetta gæti hljómað sem óþarfa sóun en
snýst einfaldlega um þær ríku gæðakröfur sem gerðar eru til lyfja; strangt
eftirlit allt frá hráefni í gegnum framleiðsluferli og alla dreifingu, þar til
lyfið skilar sér loks til neytandans. Slíkar kröfur eru nauðsynlegar þar sem um
afar viðkvæma vöru er að ræða og mikilvægt er að virkni lyfsins haldist þar til
þess er neytt. Lyf þarf t.d. að geyma við ákveðin skilyrði, svo sem rétt
hitastig fyrir hvert þeirra. Í öllum apótekum er fylgst nákvæmlega með
hitastigi í lyfjageymslum til að tryggja að lyfin séu geymd við rétt hitastig. Ljóst
er að hvorki starfsfólk apóteka né framleiðendur geta tryggt að lyfið virki sem
skyldi ef það hefur farið út úr apótekinu. 

Síðast uppfært: 3. apríl 2019
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat