Yfirlýsing EMA og ECDC um stöðu COVID-19 og bólusetningar í Evrópu

Of snemmt er að segja til um hvort og hvenær þörf verði á endurbólusetningu

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) og evrópska sóttvarnamiðstöðin (ECDC) hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um stöðu COVID-19 faraldursins og bólusetningar í Evrópu.

Staðan á COVID-19 í Evrópu

Hið svokallaða Delta-afbrigði (B.1.617.2) SARS-CoV-2 veirunnar breiðist hratt út í Evrópu og getur orðið þess valdandi að erfiðara muni reynast að halda heimsfaraldrinum í skefjum. Fyrirliggjandi gögn benda til að það sé 40-60% meira smitandi en Alpha-afbrigðið (B.1.1.7). Einnig kann Delta-afbrigðið að tengjast aukinni hættu á sjúkrahúsvist.
ECDC reiknar með að í lok ágúst verði 90% allra virkra SARS-CoV-2 vírus smita í Evrópu af völdum Delta-afbrigðisins. Af þeim sökum er mikilvægt að lönd í álfunni hraði bólusetningum eins og kostur er til að koma í veg fyrir smit og að veiran þróist áfram í enn önnur afbrigði, eins og segir í tilkynningunni.

Mikilvægt að klára bólusetningar í samræmi við ráðleggingar

Til þess að ná fram hámarksvernd gegn vírusnum segja stofnanirnar mikilvægt að klára ráðlagðar bólusetningar í samræmi við þau fyrirmæli sem fram koma í lyfjatextum (fylgiseðli og samantekt á eiginleikum lyfs). Eftir því sem Delta-afbrigðið dreifist í auknum mæli er mikilvægi þess að ljúka fyrirhugðum bólusetningum undirstrikað. Bráðabirgðagögn benda til þess að beggja skammta af tveggja skammta bóluefnum gegn COVID-19, eins og Comirnaty (BioNtech/Pfizer), Spikevax (Moderna) eða Vaxzevria (AstraZeneca), sé þörf til að veita fullnægjandi vörn gegn Delta-afbrigði veirunnar.

Notkun tveggja ólíkra bóluefna

Í mörgum löndum hefur verið ákveðið að fara þá leið að nota bóluefni frá öðrum framleiðanda við gjöf seinni skammts. Sem dæmi hefur fólki sums staðar verið boðinn seinni skammtur af mRNA bóluefni eins og Comirnaty eða Spikevax eftir að hafa fengið fyrri skammt af bóluefni sem inniheldur adenóveiru, Vaxzevria.
Notkun tveggja ólíkra bóluefna (stundum kallað „mix and match“ á ensku), þar sem annars konar bóluefni er gefið í seinni skammtinum, hefur verið beitt áður fyrir önnur bóluefni. Það eru góðar vísindalegar forsendur til að ætla að þessi aðferð sé örugg og árangursrík þegar henni er beitt við bólusetningu gegn COVID-19. Aðferðin getur flýtt bólusetningum og gert þjóðum kleift að nýta betur tiltækar birgðir af bóluefnum.

Að svo stöddu eru EMA og ECDC ekki í stakk búin til að leggja fram neinar endanlegar ráðleggingar varðandi notkun mismunandi bóluefna gegn COVID-19 þegar tveir skammtar eru notaðir. Engu að síður benda bráðabirgðaniðurstöður rannsókna á Spáni, Þýskalandi og Bretlandi til þess að aðferðin skili fullnægjandi ónæmissvörun og ekki sé að merkja sérstaka hættu af henni. Fleiri gagna er beðið og mun EMA rýna þau þegar þau verða aðgengileg.


Verður þörf á endurbólusetningu fyrir fullbólusetta?

Á þessari stundu er of snemmt að segja til um hvort og hvenær þörf verði á endurbólusetningu (e. booster dose) fyrir COVID-19 bóluefni. Ástæðan er skortur á gögnum og þekkingu á hversu lengi vörnin af bóluefnunum endist, ekki síst með tilliti til útbreiðslu ólíkra tilbrigða. Samvinna á milli EMA, ECDC og ráðgjafarhóps Evrópulanda um bólusetningar (NITAGs) er nú þegar til staðar ef til þess kæmi að þörf yrði á endurbólusetningu. Öll ný gögn sem verða tiltæk verða yfirfarin með hraði.

Sjá nánar sameiginlega frétt EMA og ECDC.

Síðast uppfært: 16. júlí 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat