Lyf og sólarljós – forðist viðbrögð í húð

Sum lyf geta valdið viðbrögðum í húðinni sé hún óvarin fyrir sólarljósi, og það á líka við um sólarljós frá sólbaðsstofubekkjum. Þetta kallast ljósnæmi og getur líkst sólbruna. Mikilvægt er að koma í veg fyrir slík viðbrögð

Athugaðu hvort lyfin þín geti valdið útbrotum í sólinni

Bæði lyf sem notuð eru við langvinnum sjúkdómum og skammtímasjúkdómum geta valdið húðviðbrögðum í sól. Þetta á einnig við um lausasölulyf. Ef þú veist ekki hvort þetta á við um lyfin þín skaltu spyrja lækni, lyfjafræðing eða lesa fylgiseðilinn.

Dæmi um lyf sem geta valdið húðviðbrögðum í sól

Nokkur algeng dæmi eru talin upp hér neðar en þessi listi er ekki tæmandi. Athugaðu alltaf í fylgiseðlinum hvað á við um þín lyf.

Sýklalyf

  • Tetrasýklín lyf (t.d. doxycycline) er sú tegund sýklalyfja sem veldur flestum tilfellum húðviðbragða í sólinni. Þessi tegund sýklalyfja eru notuð gegn mörgum tegundum sýkinga og sem meðferð við unglingabólum.
  • Trimethroprim og ciprofloxacin eru dæmi um önnur algeng sýklalyf sem geta valdið viðbrögðum í húð.

Bólgueyðandi og verkjastillandi lyf

  • Íbúprófen, naproxen og díklófenak eru dæmi um bólgueyðandi og verkjastillandi lyf. Þessi lyf eru algeng og kallast einnig bólgueyðandi gigtarlyf.
  • Naproxen og díklófenak geta valdið húðviðbrögðum en það kemur sjaldan fyrir með íbúprófeni.
  • Með staðbundinni notkun verkjastillandi hlaups með díklófenaki á húðina geta húðviðbrgöðin komið fram eftir að húðin hefur verið útsett fyrir sólarljósi.

Hjarta- og blóðþrýstingslyf

  • Tíazíð eru þvagræsilyf sem eru oft notuð við of háum blóðþrýstingi. Flestir þola tíazíð vel en nokkrir geta þróað með sér langvarandi næmi fyrir sólarljósi.
  • Amiodarone er notað til að meðhöndla hjartsláttartruflanir. Amiodarone getur gert húðina langvarandi viðkvæma fyrir sólarljósi og allir sem nota amiodarone verða að verja sig fyrir sólarljósi.

Getnaðarvarnarpillur

Það er mjög sjaldgæft að getnaðarvarnarpillur valdi útbrotum ef dvalið er í sólinni. Þrátt fyrir það geta hjá sumum komið fram litlir litablettir á húðina eftir nokkurra mánaða notkun. Þetta er kallað melasma. Gott ráð er að prófa sig varlega áfram með útsetningu húðarinnar fyrir sólarljósi til þess að komast að því hvort þú sért í hópi þeirra sem fá þessi viðbrögð.

Forvarnir eru mikilvægar

Mikilvægast er að fara varlega. Ef þú tekur lyf sem geta valdið húðviðbrögðum ættir þú að forðast beint sólarljós og notkun ljósabekkja eins og hægt er, sérstaklega á fyrstu dögum meðferðar með lyfinu. Ekki vera í sólinni um miðjan dag, skýldu húðinni með því að þekja hana með léttum fatnaði og notaðu höfuðfat. Notaðu einnig sólarvörn sem veitir góða vörn gegn UVA geislum.

Ef útbrot koma fram

Útbrotin geta líkst sólbruna og verið óþægileg. Í flestum tilfellum ganga viðbrögðin fljótt yfir. Mikilvægt er að hafa samband við lækni eða lyfjafræðing áður en töku lyfsins er hætt. Ef ekki er hægt að hætta  meðferðinni eða skipta um lyf er mikilvægt að forðast beint sólarljós.

Í sumum tilfellum geta húðviðbrögðin orðið langvarandi eða alvarleg og þarfnast meðferðar. Í þeim tilfellum er nauðsynlegt að hafa samband við lækni.

Síðast uppfært: 15. júní 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat