Sala falsaðra fyllingarefna í fegrunartilgangi er óheimil

Efni, efnasamsetningar eða hlutir sem ætlunin er að nota til andlits- eða húð- eða slímhúðarfyllingar með því að sprauta undir húð, í slímubeð eða leðurhúð eða setja inn á annan hátt (þó ekki til húðflúrunnar) falla undir skilgreiningu lækningatækja án læknisfræðilegs tilgangs.

Æskilegt er að gæta varúðar þegar lækningatæki sem þessi eru notuð og forðast skal kaup á fölsuðum vörum. Með eftirfarandi upplýsingum vekur Lyfjastofnun athygli á nokkrum áhættuþáttum sem fylgja því að kaupa fölsuð fyllingarefni.

  1. Ekki er tryggt að framleiðslu- og flutningsskilyrði uppfylli neytendakröfur og þar af leiðandi eru gæði og öryggi þessara vara ekki tryggð.
  2. Hættuleg efni eða óstaðfest dauðahreinsun á vörum getur leitt af sér ýmsa fylgikvilla s.s. sýkingar, ofnæmi, bruna o.fl.
  3. Ekkert samræmismat á sér stað fyrir þessar vörur og geta lögbær yfirvöld því ekki tryggt öryggi varanna.

Hvernig má forðast falsaðar vörur?

  1. Kaupið vörur beint frá framleiðanda eða opinberum dreifingaraðila hans.
  2. Forðist að bregðast við auglýsingum sem eru of góðar til að vera sannar
  3. Gangið úr skugga um að réttar merkingar séu til staðar á vöru. Einkum CE merking ásamt fjórum tölustöfum tilkynnts aðila fyrir neðan CE merkið.
  4. Sendið framleiðanda lotunúmer og fyrningardagsetingu á vöru til að sanna gildi vörunnar ef vaki leikur á um það.

Hvert má tilkynna vitneskju eða grun um falsaða vöru?

Grun eða vitneskju um falsaðar vörur sem falla undir skilgreiningu á lækningatæki án læknisfræðilegs tilgangs má tilkynna til Lyfjastofnunar í gegnum netfangið [email protected]

Nánar um fyllingarefni í fegrunartilgangi

Efni, efnasamsetningar eða hlutir sem sprautað er undir húð til fyllingar í fegrunartilgangi eru lækningatæki í hæsta áhættuflokki, flokki III. Þegar þau eru markaðsett skulu þau hafa ESB-samræmisyfirlýsingu þar sem framleiðandi staðfestir að tækin uppfylli kröfur sem settar eru fram í reglugerð um lækningatæki. Þar sem um er að ræða lækningatæki í áhættuflokki III skal tilkynntur aðili vera tilgreindur á ESB-samræmisyfirlýsingu. CE merki skal vera á lækningatæki og á umbúðum þess. Á umbúðum tækisins skal auk þess númer tilkynnta aðilans (fjórir tölustafir) vera skilgreint með CE merkinu.

Síðast uppfært: 24. ágúst 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat