Með skömmtun lyfja í skammtaöskjur er átt við hvers kyns pökkun lyfja í sérstaka skammtaöskju fyrir tilgreindan sjúkling.
Með vélskömmtun er átt við skömmtun lyfja með þar til gerðri vél í viðurkenndar umbúðir. Með handskömmtun lyfja er átt við skömmtun lyfja í skammtaöskjur í lyfjabúðum eða sjúkrahúsapótekum. Lyfjabúðum er heimilt að handskammta lyf og skulu tilkynna Lyfjastofnun um það sem framkvæmir úttekt á framleiðslusvæði og ferlum skömmtunar. Til vélskömmtunar lyfja þarf framleiðsluleyfi frá Lyfjastofnun.
Um skömmtun í skammtaöskjur gilda sömu reglur og um afgreiðslu lyfseðla, þ.á m. um faglegt eftirlit lyfjafræðings. Við skömmtun skal fylgja skriflegum fyrirmælum læknis sem leyfi hefur til að ávísa því lyfi sem á að skammta. Fyrirmælin skulu ná til allra lyfja sem skammtað er. Í fyrirmælum læknis skal koma greinilega fram hve mikið magn skuli afhent hverju sinni og á hvaða tíma sólarhrings það skuli notað. Lyfjaávísanir sem ætlaðar eru til skömmtunar skulu auðkenndar sérstaklega. Að jafnaði skal ekki skammta til lengri tíma en eins mánaðar í senn.
Lyfjafræðingur ber ábyrgð á skömmtun lyfja en honum er þó heimilt að fela lyfjatæknum eða í undantekningatilvikum öðru sérþjálfuðu starfsfólki að annast skömmtunina enda annist lyfjafræðingur lokaeftirlit og skulu báðir aðilar kvitta fyrir réttri framkvæmd. Sérstök skylda er lögð á þann sem annast skömmtun að hann gangi úr skugga um að lyf henti til skömmtunar með tilliti til geymsluþols, lyfjafræðilegra og tæknilegra eiginleika lyfsins og milliverkana við önnur lyf.
Lyfsöluleyfishafar eru þeir einu sem hafa heimild til að selja skömmtuð lyf beint til sjúklinga. Fyrirtæki sem hefur heimild til að vélskammta lyf, en hefur ekki lyfsöluleyfi, hefur eingöngu heimild til að selja lyf til heilbrigðisstofnana eða lyfsöluleyfishafa. Af þessu leiðir að sá lyfsöluleyfishafi sem selur skömmtuð lyf beint til sjúklings, óháð því hvort annar aðili sjái um skömmtunina, ber höfuðábyrgð á lyfsölunni.