Í mars og apríl var fram haldið áhættumati fjölmargra lyfja (RMP), ýmist þeirra sem ekki höfðu enn fengið markaðsleyfi eða uppfærslu á áhættumati. Auk þess var samkvæmt venju rætt um öryggisskýrslur (PSURs/ PSUSA).
Fundur Lyfjaöryggisnefndar í maí
Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) hélt fund dagana 5.-8. maí sl. Meðal annars voru gefnar út leiðbeiningar til að draga úr líkum á sjálfsskaðandi hugsunum þegar lyfin fínasteríð og dútasteríð eru notuð. Einnig var byrjað að endurmeta öryggi bóluefnisins Ixchic, en það er ætlað sem vörn gegn hitabeltissjúkdómi sem chikungunya veiran veldur. Sagt var frá öryggisboðinu í frétt á vef Lyfjastofnunar 6. maí sl. Bóluefnið er ekki markaðssett á Íslandi.
Fínasteríð og dútasteríð
Fínasteríð og dútasteríð eru lyf sem notuð eru til að hafa stjórn á góðkynja stækkun blöðruhálskirtils, fínasteríð einnig við hárlosi vegna skorts á karlhormónum. -Þegar var þekkt að geðraskanir og kynlífsraskanir voru tengdar fínasteríði 1 mg, og dútasteríði 0,5 mg og er þess getið í fylgiseðlum, en ástæða þótti til að skoða sérstaklega tilvik sjálfskaðandi hugsana vegna fjölda tilfella sem tilkynnt voru til yfirvalda.
PRAC fór yfir og mat tilkynntar aukaverkanir tengdar fínasteríði og dútasteríði víðs vegar að úr Evrópu auk annarra tiltækra gagna. Niðurstaðan er sú að lyfjaöryggisnefndin staðfestir orsakatengsl milli sjálfsvígshugsana og notkunar 1 og 5 mg taflna fínasteríðs, en að ávinningur af notkun þess sé engu að síður meiri en áhættan. Tíðni þessarar aukaverkunar er óþekkt, ekki tókst að áætla hana út frá fyrirliggjandi gögnum.
Ekki fannst orsakasamband milli sjálfsvígshugsana og notkunar dútasteríðs miðað við fyrirliggjandi gögn en þar sem verkun dútasteríðs er sambærileg verkun fínasteríðs, munu sambærileg varnaðarorð fylgja báðum lyfjunum.
Ekki var af rannsóknargögnum séð að sjálfsvígshugsanir fylgdu notkun fínasteríðs sem úðað er á húð.