Lyfjastofnun hefur endurskoðað afgreiðslumerkingu lyfsins Intuniv (gúanfacín). Hingað til hefur einungis ákveðnum sérfræðilæknum verið heimilt að ávísa lyfinu (Z-merking), en framvegis geta aðrir læknar einnig ávísað því (R-merking).
Endurskoðun þessi var gerð með það að leiðarljósi að hafa afgreiðslumerkingu lyfsins í samræmi við önnur lyf með ábendingu við athyglisbresti með ofvirkni (ADHD) hjá börnum og unglingum.
Upplýsingar um afgreiðslutilhögun hafa þegar verið uppfærðar í sérlyfjaskrá og verða uppfærðar í næstu útgáfu lyfjaverðskrár sem tekur gildi 1. júní næstkomandi.
Í kafla 4.2 í samantekt á eiginleikum lyfsins (SmPC) um skammta og lyfjagjöf segir að sérfræðingur í hegðunarröskunum barna og/eða unglinga skuli hefja meðferð með lyfinu og hafa umsjón með henni.
Vakin er athygli á að öryggis- og fræðsluefni fylgir öllum styrkleikum lyfsins og má finna það í sérlyfjaskrá.
Lyfið er merkt svörtum þríhyrningi og er heilbrigðisstarfsfólk sérstaklega hvatt til að tilkynna grun um aukaverkanir af völdum lyfsins til Lyfjastofnunar.