Áhyggjuefni að færri nemar en áður hefja nám í lyfjafræði

Til að bregðast við skorti á fagmenntuðu starfsfólki telur Lyfjastofnun að breytingar á lyfjafræðinámi geti meðal annars orðið til þess að fjölga lyfjafræðingum í apótekum

Eftirlit með mönnun lyfjabúða er eitt af hlutverkum Lyfjastofnunar. Sú staða er komin upp að skortur er á fagmenntuðu starfsfólki til starfa í lyfjabúðum og telur stofnunin að bregðast þurfi við því. Afgreiðsla lyfja er hluti af þeirri heilbrigðisþjónustu sem veitt er hér á landi og er því mikilvægt að henni sé sinnt af starfsfólki með viðeigandi menntun.

Nýverið voru kveðnir upp dómar í Héraðsdómi Reykjavíkur sem tóku til mönnunar lyfjafræðinga í apótekum eins og nánar hefur verið fjallað um hér á vef Lyfjastofnunar. Lyfjastofnun fagnar, niðurstöðu dómanna er snýr að túlkun stofnunarinnar á mönnunarákvæði lyfjalaga og sem og að breytt stjórnsýsluframkvæmd hafi verið metin lögmæt og málefnaleg.

Færri nemar hefja nám og útskrifast úr lyfjafræði

Einstaklingum sem innritast í grunnnám í lyfjafræði við Háskóla Íslands fer fækkandi ár frá ári. Innritaðir nemar í grunnnámi lyfjafræði voru 36% færri árið 2023 en 2014. Fækkunin er því umtalsverð. Fjöldi útskrifaðra lyfjafræðinga með BS gráðu fækkar lítið eitt á árunum 2014-2023.

Lyfjastofnun hefur áhyggjur af þessari þróun í ljósi þess að lyfjafræðingar eru heilbrigðisstarfsfólk og gegna ómissandi hlutverki við afgreiðslu lyfja, meðal annars við að veita upplýsingar um notkun lyfja með það að markmiði að hámarka árangur lyfjameðferðar og auka lífsgæði þeirra sem nota lyf.

Stofnunin hefur jafnframt áhyggjur af fækkun lyfjatækna í apótekum og er það öfug þróun við það sem sjá má á Norðurlöndunum.

Nýleg samantekt Lyfjastofnunar um starfsemi apóteka sýnir að 37% alls starfsfólks apóteka árið 2023 er úr röðum lyfjafræðinga og lyfjatækna. Annað starfsfólk er í meirihluta og telur alls 63%.

Hvað er til ráða?

Lyfjastofnun telur að fjölga þurfi fagmenntuðu starfsfólki lyfjabúða eins fljótt og verða má.

Haustið 2023 sendi Lyfjastofnun heilbrigðisráðuneytinu erindi varðandi mönnum fagmenntaðs starfsfólks í lyfjabúðum og var Lyfjafræðingafélag Íslands upplýst samhliða með afriti.

Í bréfinu vakti stofnunin athygli ráðuneytisins á fjölda fagmenntaðra í lyfjabúðum, en ljóst er að meirihluti starfsmanna í lyfjabúðum er svokallað þjálfað starfsfólk sem ekki hefur gráðu í lyfjafræði eða lyfjatækni. Lyfjastofnun leggur ríka áherslu á að stuðlað sé að aukningu fagmenntaðra starfsmanna í apótekum og hefur stofnunin til að mynda lagt eftirfarandi til:

  1. Fjölga lyfjafræðingum í apótekum með því að sk. aðstoðarlyfjafræðingsréttindi fáist eftir 3 ár. Þannig verði ekki lengur gerð krafa um að hafa lokið fjórða ári í lyfjafræði heldur BS gráðu. Til að þetta geti orðið þarf Háskóli Íslands að breyta námsskrá sinni til samræmis svo viðeigandi námskeið verði kennd í grunnnámi í stað þess að vera kennd á fjórða ári. Samhliða því verði skoðað sérstakt námskeið til að koma til móts við þá nema sem hafa hafið nám í lyfjafræði en falla utan þessa fyrirkomulags. Hér áður fyrr voru stór hluti þeirra lyfjafræðinga sem unnu í apótekum aðstoðarlyfjafræðingar og er það svipað fyrirkomulag og er stuðst við á Norðurlöndunum.
  2. Boðið verði upp á brúarnám í lyfjatækni, þannig að reynslumiklu, þjálfuðu starfsfólki standi til boða að fá reynslu sína við störf í lyfjabúðum metna upp í nám lyfjatækna. Samhliða þessu verði skoðað að þeir sem hafi öðlast slík réttindi geti sinnt afmörkuðum verkefnum sem léttir á mönnun apóteka hvað varðar lyfjafræðinga.
  3. Lyfjastofnun verði heimilað að binda afhendingu lyfja í flokkum ávana- og fíknilyfja og undanþágulyfja við lyfjafræðinga, einstaklinga með BS-gráðu í lyfjafræði eða lyfjatækna. Með þessari breytingu væri til að mynda hægt að fela lyfjatæknum aukið ábyrgðarsvið í starfsemi lyfjabúða.
Síðast uppfært: 28. júní 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat