Ákvörðun um smásöluálagningu ávísunarskyldra lyfja

Í ljósi verðþróunar í samfélaginu undanfarið hefur verið ákveðið að fyrirhuguð hækkun álagningar 1. mars 2023 komi til framkvæmda í tveimur áföngum

Við gildistöku nýrra lyfjalaga 1. janúar 2021 fékk Lyfjastofnun það hlutverk að taka ákvörðun um verð og greiðsluþátttöku í lyfjum hér á landi, þar á meðal að ákvarða hámarksverð í smásölu á ávísunarskyldum lyfjum.

Eitt af markmiðum lyfjalaga er að halda lyfjakostnaði í lágmarki, og við ákvörðun hámarksverðs ávísunarskyldra lyfja í heildsölu og smásölu er Lyfjastofnun skylt að taka mið af verði sömu lyfja í viðmiðunarlöndum.

Fyrsta ákvörðun um breytta smásöluálagningu

Í maí á síðasta ári tók Lyfjastofnun í fyrsta sinn ákvörðun um breytta smásöluálagningu ávísanaskyldra lyfja. Sú ákvörðun var þríþætt.

  1. Verðþrepum sem og smásöluálagningu var breytt þann 1. júlí 2022. Álagning á ódýrustu lyf lækkaði en álagning á dýrari lyf hækkaði. Um var að ræða 2,5% heildarhækkun á álagningu.
  2. Ákveðið var að greiða sérstakt þjónustugjald til apóteka, 120 kr., fyrir að afgreiða ódýrasta lyf eða lyf sem er innan við 5% dýrara en það ódýrasta, í viðkomandi viðmiðunarverðflokki. Þessi ákvörðun tók gildi 1. janúar 2023.
  3. Ákveðið var að smásöluálagning ávísunarskyldra lyfja skyldi hækka þann 1. mars 2023 sem samsvarar verðlagsforsendum fjárlaga 2023. Þannig myndi heildarupphæð smásöluálagningarinnar hækka í samræmi við prósentuhlutfall verðlagsbreytinga og hækkunin dreifast mismunandi á verðþrep.

Forsendur hækkunar nú - til framkvæmda í tveimur áföngum

Prósentuhlutfall verðlagsbreytinga er 10,6% samkvæmt fjárlögum ársins 2023 eins og fram kom í frétt Lyfjastofnunar í janúar sl. Heildarhækkun smásöluálagningar mun því verða 10,6% miðað við heildarsmásöluálagningu 2022. Í ljósi stöðunnar í þjóðfélaginu um þessar mundir, m.a. vegna óvenju mikillar og vaxandi verðbólgu, hefur verið ákveðið að hluti hækkunarinnar komi til síðar á árinu.

Fyrirhuguð hækkun 1. mars verður því í tveimur áföngum. Í dag, 1. mars 2023, hækkar smásöluálagningin um 7% miðað við heildarsmásöluálagningu 2022. Þann 1. október nk. hækkar álagningin um 3,6% miðað við heildarsmásöluálagningu 2022, að gefnum fyrirvara um breyttar forsendur.

Athuga skal að umrædd hækkun smásöluálagningar segir ekki til um hækkun lyfjaverðs í heild sinni. Lyfjaverð samanstendur af innkaupsverði apóteka, smásöluálagningu og virðisaukaskatti.

Neðangreind tafla sýnir hvernig hámarkssmásöluverð ávísunarskyldra lyfja verður reiknað út frá heildsöluverði frá og með 1. mars 2023

HámarksheildsöluverðSmásöluálagning
0 – 4.999 kr.20% + 1.133 kr.
5.000 – 19.999 kr.14% + 1.354 kr.
20.000 – 99.999 kr.2% + 3.422 kr.
>100.000 kr.0,3% + 6.325 kr.
Ofan á heildsöluverð að viðbættri álagningu leggst virðisaukaskattur.

Dæmi

  • Lyf sem kostar 1.300 kr. í heildsölu, kostaði í febrúar 3.260 kr. í smásölu (m/vsk) en mun kosta 3.339 kr. í mars. Hækkun verðs nemur þannig 79 kr. eða 2,4%.
  • Lyf sem kostar 7.000 kr. í heildsölu, kostaði í febrúar 11.470 kr. í smásölu (m/vsk) en mun kosta 11.574 kr. í mars. Hækkun verðs nemur þannig 104 kr. eða 0,9%.

Smásöluálagning verður síðan sem hér segir frá 1. október 2023 með fyrirvara um breyttar forsendur

HámarksheildsöluverðSmásöluálagning
0 – 4.999 kr.20% + 1.181 kr.
5.000 – 19.999 kr.14% + 1.454 kr.
20.000 – 99.999 kr.2% + 3.538 kr.
>100.000 kr.0,3% + 6.670 kr.
Ofan á heildsöluverð að viðbættri álagningu leggst virðisaukaskattur.

Ákvörðunin er tekin að höfðu samráði við fulltrúa lyfsöluleyfishafa eins og kveðið er á um í lyfjalögum.

Síðast uppfært: 1. mars 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat