Alþjóðleg lyfjayfirvöld hafa birt skýrslu þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðu vinnustofu um þróun bóluefnis við COVID-19. Vinnustofan var haldin undir merkjum Alþjóðasambands lyfjastofnana (ICMRA) 18. mars sl.
Í skýrslunni er lögð áhersla á mikilvægi þess að hraða þróun bóluefnis vegna COVID-19 faraldursins sem nú ógnar heilsu fólks um heim allan. Jafnframt er undirstrikað að mat áhættu á móti ávinningi þurfi ávallt að liggja til grundvallar prófunum, þótt þörfin fyrir bóluefni sé brýn.
Settar eru fram samræmdar viðmiðunarreglur sem gilda skulu um þróun og mat bóluefnis við COVID-19, og snúa þær að tveimur meginatriðum:
- Gögnum sem þurfa að liggja fyrir áður en klínískar prófanir í mönnum hefjast
- Mikilvægi þess að skoða nánar þá fræðilega mögulegu áhættu að bóluefni við COVID-19 kunni að geta eflt sjúkdóminn
Vinnustofan fór fram með fjarfundatækni undir sameiginlegri forystu Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) og Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna (FDA). Sautján þátttakendur mættu til leiks fyrir hönd meira en tuttugu lyfjastofnana um heim allan, en að auki sóttu vinnustofuna sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Lögð var áhersla á mikilvægi þess að miðla upplýsingum hvaðanæva að með góðri samvinnu lyfjastofnana um heim allan.