Á þessu ári endurskoðar Lyfjastofnun verð lyfseðilsskyldra lyfja fyrir menn. Endurskoðunin fer fram í þrennu lagi, en tilkynnt var um fyrsta hluta 9. júní sl.
Annar hluti verðendurskoðunar 2023
Við verðendurskoðun er hámarksverð lyfja í heildsölu skoðað með hliðsjón af verði sömu lyfja í viðmiðunarlöndunum. Annar hluti nær til almennra lyfja í eftirfarandi ATC flokkum:
- Sykursýkislyf A10BJ og A10BK
- Segavarnarlyf B01AF
- Taugakerfi N02C og N06BA
- Öndunarfæri R03
Áætlað er að niðurstöður endurskoðunar liggi fyrir eigi síðar en 29. september og veittur verður frestur til 30. október til að koma á framfæri athugasemdum/andmælum. Fyrirhugað er að birta ný verð í lyfjaverðskrá 1. desember 2023.
Framangreind verðendurskoðun byggir á upplýsingum um selt magn árið 2022 og verð í lyfjaverðskrá þann 15. maí 2023. Miðað verður við lyfjaverðskrárgengi eins og það var þann 15. maí 2023. Vörunúmer með enga veltu á árinu 2022 koma ekki til skoðunar.
Verðendurskoðun byggir á 1. mgr. 72. gr. lyfjalaga, nr. 100/2020, 7. gr. reglugerðar nr. 1414/2020, um verðlagningu lyfja og greiðsluþátttöku í lyfjum, og vinnureglu Lyfjastofnunar um ákvörðun heildsöluverðs lyfja. Haft var samráð við Sjúkratryggingar Íslands og Landspítala um forgangsröðun verðendurskoðunar.
Upplýsingar um þriðja hluta verðendurskoðunar verða birtar í haust.