Fyrsti hluti verðendurskoðunar

Lyfjastofnun fyrirhugar að framkvæma verðendurskoðun á lyfseðilsskyldum lyfjum fyrir menn á árinu í þremur hlutum. Fyrsti hluti nær til leyfisskyldra lyfja sem eru ekki með samning við Landspítala og undanþágulyfja með ársveltu í heildsölu yfir 10 millj. kr.


Frétt uppfærð 21. júní í ljósi framlengds umsagnarfrests.

Við verðendurskoðun er hámarksverð lyfja í heildsölu skoðað með hliðsjón af verði sömu lyfja í viðmiðunarlöndunum. Verðendurskoðun byggir á 1. mgr. 72. gr. lyfjalaga, nr. 100/2020, 7. gr. reglugerðar nr. 1414/2020, um verðlagningu lyfja og greiðsluþátttöku í lyfjum, og vinnureglu Lyfjastofnunar um ákvörðun heildsöluverðs á lyfjum.

Framkvæmd verðendurskoðunar 2023

Með vísan til 1. mgr. 72. gr. lyfjalaga nr. 100/2020 fyrirhugar Lyfjastofnun að framkvæma verðendurskoðun á lyfseðilsskyldum lyfjum fyrir menn á árinu 2023. Verðendurskoðunin verður gerð í þremur hlutum. Fyrsti hluti nær til eftirfarandi:

  • Leyfisskyld lyf sem eru ekki með samning við Landspítala
  • Undanþágulyf með ársveltu í heildsölu yfir 10 milljónir kr. miðað við sölu árið 2022.

Áætlað er að niðurstöður þessa hluta verðendurskoðunar liggi fyrir eigi síðar en 15. júní og veittur verður frestur til 12. ágúst til að koma á framfæri athugasemdum/andmælum.

Fyrirhugað er að birta ný verð í lyfjaverðskrá 1. október n.k., eftir að nýjar verklagsreglur um ákvörðun hámarksheildsöluverðs lyfja taka gildi og munu því fyrirhugaðar ákvarðanir taka mið af verklagsreglum sem taka gildi 1. september næstkomandi.

Til grundvallar ofangreindri verðendurskoðun eru upplýsingar um selt magn fyrir árið 2022 og verð í lyfjaverðskrá þann 15. maí 2023.

Miðað verður við lyfjaverðskrárgengi eins og það var þann 15. maí 2023. Vörunúmer með enga veltu á árinu 2022 koma ekki til skoðunar.

Haft var samráð við Sjúkratryggingar Íslands og Landspítala um forgangsröðun verðendurskoðunar.
Frekari upplýsingar um hluta tvö og þrjú í verðendurskoðun verða birtar fyrir lok júní.

Nýtt verklag um ákvörðun hámarks heildsöluverðs

Sérstök athygli er vakin á uppfærðri verklagsreglu Lyfjastofnunar um ákvörðun hámarks heildsöluverðs sem tekur gildi 1. september nk.

 

Síðast uppfært: 21. júní 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat