Athygli vakin á mikilvægi aukaverkanatilkynninga

Þessa dagana
stendur yfir samevrópskt átak til að vekja athygli á mikilvægi þess að tilkynna
aukaverkanir sem fylgt geta notkun lyfja. Þetta er í þriðja sinn sem efnt er
til átaks af þessu tagi og hefur Lyfjastofnun verið með frá upphafi. Að þessu
sinni er megináherslan lögð á börn og barnshafandi konur. Að börn geti brugðist
við lyfjum með öðrum hætti en fullorðnir, jafnvel þótt um sambærileg lyf sé að
ræða, og sömuleiðis sé mikilvægt að fá upplýsingar um áhrif lyfjanotkunar á
barnshafandi konur, en slíkar upplýsingar eru af skornum skammti.

Myndbönd og teiknimyndir
Öll þátttökulöndin hafa birt sömu teiknuðu hreyfimyndirnar með sams konar texta, hvert á sínu opinbera tungumáli. Að auki er lyfjastofnun hvers lands í sjálfsvald sett að bæta um betur og fylgja átakinu eftir með sínum hætti. Lyfjastofnun hefur auk teiknimyndanna birt viðtöl um mikilvægi aukaverkanatilkynninga við Hrefnu Guðmundsdóttur nýrnalækni, og Ingibjörgu Th. Hreiðarsdóttur yfirljósmóður á Göngudeild mæðraverndar.

Sumar þurfa lyf vegna áhrifa
meðgöngunnar
Fram kemur í
viðtalinu við Ingibjörgu að stundum þurfi konur á lyfjum að halda eftir að þær
verða barnshafandi, t.d. til að meðhöndla meðgöngusykursýki og háþrýsting.
Einnig kemur fyrir að konum sem hafa notað tiltekin lyf að staðaldri er ráðlagt
að hætta að taka þau þegar þær verða barnshafandi, þar sem ekki er vitað um
áhrif þeirra á fóstur. Þetta geti t.d. átt við um ýmis geðlyf auk annarra lyfja.

Engar fréttir eru mikilvægar fréttir
Hrefna nefnir að barnshafandi konur séu yfirleitt ekki þátttakendur þegar
prófanir á lyfjum fara fram, ekki sé verjandi að taka slíka áhættu þegar fóstur
í móðurkviði er annars vegar. Þess vegna sé afar mikilvægt að fá allar
upplýsingar um áhrif lyfja á barnshafandi konur, í þeim tilvikum þegar ekki
verður komist hjá því að nota lyf á meðgöngunni. Þá geti upplýsingar þess efnis
að engar aukaverkanir hafi fylgt notkun tiltekins lyfs verið jafn mikilvægar og
hinar þar sem sagt er frá aukaverkunum.  

Minnt er á
að auðvelt er að tilkynna aukaverkun, eða grun um aukaverkun í gegnum vef Lyfjastofnunar.

Síðast uppfært: 23. nóvember 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat