Aukaverkanatilkynningum fjölgar nokkuð með haustinu

Tuttugu og fjórar tilkynningar um aukaverkanir lyfja bárust Lyfjastofnun í október. Fjórar þeirra voru vegna lyfs sem notað er til meðferðar við COVID-19.

Tilkynningar um aukaverkanir lyfja voru 24 í október, samanborið við 16 tilkynningar í september. Aukaverkanatilkynningum hefur því fjölgað eftir því sem liðið hefur á árið, en meðaltal fyrstu tíu mánaðanna er engu að síður mun lægra en meðaltal ársins 2019.

Fjórar tilkynninganna í október voru vegna lyfs sem er notað til meðferðar við COVID-19. Engin þeirra var alvarleg en vegna þess hve mikilvægt er að fá upplýsingar um lyf notuð við COVID-19, eru slíkar tilkynningar meðhöndlaðar af Lyfjastofnun sem alvarlegar og úrvinnslu þeirra þar með flýtt. Lyfjastofnun Evrópu hefur enda hvatt sérstaklega til þess að aukaverkanir lyfja sem gefin hafa verið við COVID-19 sjúkdómnum verði tilkynntar, sem og aukaverkanir af lyfjanotkun vegna annarra sjúkdóma meðan á COVID-19 veikindum stendur.

Tvær tilkynninganna í október voru um alvarlega aukaverkun.

Tíu þeirra tilkynninga sem bárust Lyfjastofnun í október voru frá lyfjafræðingum, sjö frá læknum, og sjö frá notendum eða aðstandendum þeirra.

Tilkynningar um aukaverkanir veita mikilvægar upplýsingar um öryggi lyfja þegar þau eru komin í almenna notkun. Allir geta tilkynnt um aukaverkun lyfs, almenningur jafnt sem heilbrigðisstarfsfólk. Hægt er að tilkynna rafrænt um aukaverkun í gegnum gátt á vef Lyfjastofnunar.

Síðast uppfært: 12. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat