Blóðþrýstingslyf ekki talin áhættuþáttur í COVID-19

Undanfarið hafa birst kenningar í erlendum miðlum um að lyf gefin við háum blóðþrýstingi, hjartabilun og nýrnasjúkdómum geti haft áhrif á COVID-19 til hins verra. Engar rannsóknir liggja fyrir sem styðja þær kenningar.

Lyfin sem um ræðir eru annars vegar svokallaðir ACE-hemlar sem hindra myndun angíótensíns II (efnis sem hefur æðaþrengjandi áhrif), og hins vegar angíótensín II-viðtakahemlar (ARB). Báðir þessir flokkar lyfja verka á renín-angíótensín-aldósterónkerfi líkamans (RAAS).

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hvetur sjúklinga, sem þurfa á blóðþrýstingslækkandi lyfjum að halda, að taka þau með sama hætti og þeir hafa gert. Það er í samræmi við það sem margir sérfræðingar í hjarta- og æðasjúkdómum hafa sagt, t.a.m. Evrópusamtök hjartalækna (European Society of Cardiology).

EMA leitar til rannsakenda um upplýsingar

Vísindamenn víða um heim rannsaka nú með hvaða hætti veiran fjölgar sér, áhrif hennar á ónæmiskerfið, og hvort lyf eins og umrædd blóðþrýstingslyf geti haft áhrif á framvindu COVID-19. Engar rannsóknir hafa enn sem komið er bent til að svo sé. EMA hefur nú leitað til vísindamanna sem vinna að faraldsfræðilegum rannsóknum sjúkdómsins til að afla frekari upplýsinga og mun fylgjast grannt með framvindu mála.

Bakgrunnur kenninganna

Fyrrgreindar kenningar byggja á þeirri staðreynd að kórónuveiran notar svokallaða ACE2 viðtaka til að komast inn í frumur en þeir eru hluti af fyrrnefndu RAAS-kerfi. Tenging veirunnar við RAAS-kerfið er flókin og ekki er fullur skilningur á henni eins og sakir standa.

Sjúklingar ættu ekki að breyta sinni meðferð án samráðs við lækni. Lyfjastofnun mun uppfæra þessar upplýsingar eftir því sem gögn berast.

Frétt EMA

Síðast uppfært: 30. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat