Breyttum reglum hjá Lyfjastofnun ætlað að draga úr lyfjaskorti og fjölga lyfjum á markaði

Lyfjafyrirtækjum gert kleift að sækja um hærra heildsöluverð fyrir tiltekin nauðsynleg lyf

Lyfjastofnun ákvarðar hámarksverð í heildsölu á lyfseðilsskyldum lyfjum. Við ákvarðanir um verðlagningu tekur Lyfjastofnun almennt mið af verði lyfja á Norðurlöndum eins og kveðið er á um í lyfjalögum. Nýlega tilkynntu Norðmenn hækkun verðs ákveðinna sýklalyfja og Svíar hækkuðu svokallað verðþak lyfja sem uppfylla ákveðin skilyrði. Þann 1. september sl. tóku gildi nýjar verklagsreglur hjá Lyfjastofnun um ákvörðun hámarksheildsöluverðs lyfja.  

Markmiðið að koma í veg fyrir skort og fjölga markaðssettum lyfjum

Lágt verð og lítil notkun getur gert það að verkum að lyfjafyrirtæki vilja síður markaðssetja lyf sín. Hækkun verðs kemur því lyfjafyrirtækjum til góða og vonir standa til að það minnki líkurnar á að mikilvæg lyf skorti, auk þess að auka líkur á að lyf séu markaðssett hér á landi. 

Um árabil hefur lyfjafyrirtækjum verið heimilt að sækja um allt að 15% álag á hámarksheildsöluverð markaðssettra lyfja, að því gefnu að ársvelta þeirra sé undir ákveðnu lágmarki. Lyfjastofnun hefur nú gengið skrefinu lengra og  er nýjum reglum ætlað að draga úr líkum á skorti nauðsynlegra lyfja og fjölga markaðssettum lyfjum á Íslandi.  

Helstu breytingar sem tóku gildi 1. september sl. eru: 

  • Með nýju reglunum er lyfjafyrirtækjum gert kleift að sækja um hærra verð en almennt viðmið segir til um fyrir ákveðna lyfjaflokka. Hér er m.a. um að ræða ákveðin sýkingalyf, augnlyf og lyf í lyfjaformum sem einkum eru ætluð börnum t.d. mixtúrur og endaþarmsstílar. 
  • Lyfjainnflytjendur geta nú sótt um hærra verð en almennt viðmið segir til um fyrir nauðsynleg lyf sem skortur er á ef um alvarlegt vandamál er að ræða. 
  • Meiri ívilnun er nú fyrir markaðssett ódýr lyf sem ekki skila mikilli fjárhagslegri veltu. Veltuviðmið fyrir veltulágar lyfjapakkningar hefur verið hækkað úr 6 millj. í 7 millj. kr. auk þess sem hægt er nú að óska eftir hærra verði fyrir mjög ódýrar lyfjapakkningar. 
Síðast uppfært: 19. september 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat