COVID-19: Alvarlegar aukaverkanir klórókíns og hýdroxýklórókíns (Plaquenil)

Klórókín og hýdroxýklórókín (Plaquenil) geta valdið hjartsláttartruflunum. Séu þau notuð með öðrum lyfjum sem valdið geta hjartsláttartruflunum, svo sem sýklalyfinu azitrómýsíni, geta þau neikvæðu áhrif aukist.

Í nýlegum rannsóknum1,2 hjá sjúklingum með COVID-19 sjúkdóm hefur verið greint frá alvarlegum hjartsláttartruflunum þegar umrædd lyf hafa verið notuð í háum skömmtun eða með azitrómýsíni. Stundum leiddu þær til dauða.

Klórókín og hýdroxýklórókín eru notuð til meðferðar malaríu og ákveðnum sjálfsofnæmissjúkdómum. Aðrar mögulegar aukaverkanir lyfjanna eru lifrar- og nýrnavandamál, skemmdir taugafrumna sem leitt geta til floga, og lágur blóðsykur.

Nú um stundir eru lyf þessi notuð til meðferðar COVID-19, bæði utan ábendingar og í klínískum rannsóknum. Nauðsynlegt er að benda á, að gögn eru enn af mjög skornum skammti, erfitt er að túlka þau, og ekki hefur verið sýnt fram á gagnsemi lyfjanna til meðferðar COVID-19. Þörf er á niðurstöðum stórra, vel hannaðra rannsókna áður en hægt verður að draga ályktanir þar um.

Í sumum þeirra klínísku rannsókna sem nú eru í gangi vegna COVID-19 er notast við stærri skammta klórókíns og hýdroxýklórókíns en þá sem eru ráðlagðir í samþykktum ábendingum lyfjanna. Þótt alvarlegar aukaverkanir geti komið fram í venjubundnum skömmtum, þá geta hærri skammtar aukið líkur á þeim, þ.á.m. óeðlileg rafvirkni sem hefur áhrif á takt hjartans (lenging QT-bils).

Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að fylgjast grannt með COVID-19 sjúklingum sem fá klórókín og hydroxýklórókín og taka inn í myndina að saga um hjartakvilla geta gert sjúklinga útsettari fyrir hjartsláttaróreglu. Jafnframt eru þeir hvattir til að vera sérstaklega á varðbergi þegar um háa skammta er að ræða eða samhliða meðferð með lyfjum eins og azitrómýsíni.

Mikilvægt er að sjúklingar og heilbrigðisstarfsfólk tilkynni allan grun um aukaverkanir til Lyfjastofnunar.

Eingöngu skyldi nota klórókín og hýdroxýklórókín til meðferðar COVID-19 í klínískum rannsóknum eða samkvæmt samþykktum leiðbeiningum hvers lands. Aldrei skyldi nota lyfin án lyfjaávísunar eða án eftirlits læknis.

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) og aðildarlönd þess fylgjast náið með þessum málum og hafa aukið eftirlit með lyfjum við COVID-19 til að geta gripið inn í fyrr en ella verði þörf á því.

Frétt EMA

Síðast uppfært: 30. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat