COVID-19: Bóluefni gegn COVID-19 veita mikla vörn gegn alvarlegum sjúkdómi og sjúkrahúsinnlögnum af völdum ómíkrón-afbrigðisins

Þetta sýna bráðabirgðaniðurstöður. Þeir sem hafa fengið örvunarskammt eru enn betur varðir.

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) fylgist grannt með nýjum gögnum um virkni bóluefna gegn COVID-19, þ.m.t. af völdum ómíkrón-afbrigðisins.

Tíðni sjúkrahúsinnlagna lægri hjá þeim sem smitast af ómíkron

Þrátt fyrir að útlit sé fyrir að ómíkrón-afbrigðið smitist auðveldar en önnur afbrigði hafa rannsóknir frá Suður-Afríku, Bretlandi og nokkrum löndum í Evrópu sýnt að tíðni sjúkrahúsinnlagna í kjölfar sýkingar af því afbrigði sé lægri en fyrir önnur afbrigði.

Niðurstöður nýlega birtra rannsókna sýna að virkni bóluefna gegn COVID-19 sjúkdómi með einkennum er minni í tilfelli ómíkrón-afbrigðisins en annarra afbrigða og virknin dvínar með tímanum. Af þeim sökum er hættara við að fleiri bólusettir einstaklingar verði veikir af völdum þess afbrigðis en fyrri afbrigða.

Bólusetning veitir mikla vörn gegn alvarlegum sjúkdómi

Á hinn bóginn sýna sömu rannsóknir að bólusetning veitir mikla vörn gegn alvarlegum COVID-19 sjúkdómi og sjúkrahúsinnlögnum af völdum ómíkrón-afbrigðisins. Nýjustu gögn sýna jafnframt að þeir sem fengið hafa örvunarskammt eru betur varðir en þeir sem hafa fengið grunnbólusetningu. Gögn frá Suður-Afríku sýna að þeir, sem fengið hafa tvo skammta af bóluefni gegn COVID-19, eru 70% ólíklegri til að leggjast inn á sjúkrahús af völdum sjúkdómsins en þeir sem eru óbólusettir. Áþekk gögn frá Bretlandi sýna, að þrátt fyrir að vörn minnki nokkrum mánuðum eftir bólusetningu, þá eykst vörnin upp í 90% eftir örvunarskammt m.t.t. sjúkrahúsinnlagna af völdum sjúkdómsins.

Nánar í frétt EMA

Síðast uppfært: 12. janúar 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat