COVID-19: Frekari ráðleggingar vegna myndunar blóðtappa samhliða blóðflagnafæð í kjölfar notkunar bóluefnis AstraZeneca

Þeir einstaklingar sem fá slíka aukaverkun í kjölfar fyrri bólusetningar eiga ekki að fá seinni bólusetninguna. Heilbrigðisstarfsmenn og þeir sem fá bóluefnið skyldu vera sérstaklega vakandi fyrir einkennum sem kunna að benda til umræddar aukaverkunar.

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur gefið út frekari ráðleggingar vegna blóðtappamyndunar og blóðflagnafæðar (fækkun blóðflagna) eftir bólusetningu með bóluefni AstraZeneca gegn COVID-19 (Vaxzevria).

Eins og á við um öll bóluefni er áfram fylgst grannt með öryggi bóluefnis AstraZeneca. Leiðbeiningar eru uppfærðar eftir þörfum til að tryggja öryggi almennings.

Ráðleggingar til heilbrigðisstarfsmanna

Ráðleggingar sérfræðinganefndar EMA um lyf fyrir menn (CHMP) til heilbrigðisstarfsmanna eru svohljóðandi:

 • Ekki má gefa bóluefnið neinum sem greinst hefur með segamyndun samhliða blóðflagnafæð eftir fyrri bólusetningu með bóluefninu.
 • Einstaklinga, sem greinast með blóðflagnafæð innan þriggja vikna frá bólusetningu, á að rannsaka með tilliti til teikna um segamyndun.
 • Einstaklinga, sem greinast með segamyndun innan þriggja vikna frá bólusetningu, á að rannsaka með tilliti til teikna um blóðflagnafæð.
 • Tryggja skal að einstaklingar sem fá umrædda aukaverkun í kjölfar bólusetningar fái nánari greiningu og meðferð hjá sérfræðingi, t.d. blóðsjúkdómalækni.
 • Heilbrigðisstarfsmenn skulu benda fólki á að leita læknisaðstoðar umsvifalaust verði þeir varir við einkenni sem geti bent til segamyndunar eða blóðflagnafæðar.

Ráðleggingar til almennings

Þrátt fyrir að blóðtappamyndun samhliða fækkun blóðflagna í kjölfar bólusetningar með bóluefni AstraZeneca hafi mjög sjaldan komið fram er mikilvægt að þeir sem fá bólusetningu með bóluefninu þekki einkennin. Því þarf einstaklingur sem bólusettur hefur verið með bóluefni AstraZeneca að leita læknisaðstoðar umsvifalaust verði hann var við einhver eftirfarandi einkenna innan þriggja vikna frá bólusetningu:

 • mæði
 • brjóstverkur
 • þroti í fótlegg
 • viðvarandi kviðverkur
 • einkenni frá taugakerfi, eins og verulegur eða viðvarandi höfuðverkur, þokusjón, ringlun eða flog.
 • óvenjulegt mar á húð eða litlir rauðir flekkir á stærð við títuprjónshaus á öðrum stöðum en þar sem bólusett var

Þú mátt ekki fá seinni bólusetningu með bóluefni AstraZeneca hafi komið fram blóðtappi ásamt fækkun blóðflagna eftir fyrri bólusetninguna. Greinistu með blóðtappa eða fækkun blóðflagna eftir fyrri bólusetningu munu læknar gera á þér frekari rannsóknir.

Nánar í frétt EMA

Síðast uppfært: 21. maí 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat