Drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga komið í samráðsgátt stjórnvalda

Heilbrigðisráðuneytið hefur kynnt til umsagnar drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga sem lögð hafa verið fram í samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnir um drögin má leggja fram til og með 3. mars næstkomandi og eru þær birtar jafnóðum og þær berast.

Núgildandi lög frá 1994
Núgildandi lyfjalög eru frá árinu 1994 en þau hafa tekið ýmsum breytingum í tímans rás. Frumvarp það til nýrra lyfjalaga sem nú er til kynningar og samráðs er samið í heilbrigðisráðuneytinu, og byggir að hluta til á tillögum starfshóps frá árinu 2015. Frumvarpið var fyrst lagt fram á 145. löggjafarþingi 2015-2016 en hlaut ekki afgreiðslu. Drögin sem nú liggja frammi hafa tekið nokkrum breytingum frá þeim tíma.

Drög að nýjum lögum
Markmið frumvarpsins er að tryggja landsmönnum nægilegt framboð nauðsynlegra lyfja með öryggi sjúklinga að leiðarljósi, og sömuleiðis að ná fram sem hagkvæmastri dreifingu lyfja á grundvelli eðlilegrar samkeppni, í samræmi við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.

Nokkur nýmæli í frumvarpsdrögunum
Meðal nýmæla í frumvarpsdrögunum er að lyfjagagnagrunnur sem Embætti landlæknis starfrækir verði færður til betri vegar, og svokölluð stoðskrá lyfja, með upplýsingum um lyf á markaði á Íslandi, virk efni þeirra, milliverkanir o.fl., verði skilgreind.

Þá er lagt til að heilbrigðisstarfsmenn verði skyldaðir til að tilkynna aukaverkanir lyfja. Að dýralæknar sæki um leyfi til Lyfjastofnunar til að ávísa lyfjum, og lyfsöluleyfi þeirra verði afnumið. Þá er í drögunum ákvæði til bráðabirgða um að lyfjagreiðslunefnd verði lögð niður og verkefni hennar færð til Lyfjastofnunar og Landspítalans. Einnig kaflar um eftirlit og þvingunarúrræði Lyfjastofnunar, og viðurlög við brotum gegn ákvæðum laganna.

Rétt er að ítreka að frumvarpið er enn í vinnslu og gera má ráð fyrir að það muni taka breytingum að loknu samráði.

Síðast uppfært: 22. febrúar 2019
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat