EMA samþykkir uppfærðar útgáfur Comirnaty og Spikevax 

Lyfjastofnun Evrópu hefur veitt uppfærðum örvunarskömmtum tveggja bóluefna markaðsleyfi til að ná víðtækari virkni gegn COVID-19 

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um lyf fyrir menn (CHMP) mælir með að bóluefnin Comirnaty Original/Omicron BA.1 og Spikevax Bivalent Original/Omicron BA.1 fái markaðsleyfi.

Bóluefnin eru ætluð einstaklingum 12 ára og eldri sem þegið hafa að minnsta kosti eina bólusetningu gegn COVID-19.

Uppfærðar útgáfur bóluefnanna

Bóluefnin eru uppfærðar útgáfur af upprunalegu bóluefnunum Comirnaty (Pfizer/BioNTech) og Spikevax (Moderna) ætluð til að ná meiri árangri gegn Omicron BA.1 afbrigði SARS-CoV-2 auk þess upprunalega.

Hvernig virka bóluefnin?

Uppfærðu bóluefnin virka á sama hátt og þau upprunalegu.

Bæði Comirnaty Original/Omicron BA.1 og Spikevax Bivalent Original/Omicron BA.1 innihalda mRNA sem gefa boð um famleiðslu á gaddapróteinum SARS-CoV-2 og Omicron afbrigði BA.1. Með uppfærðum bóluefnum næst víðtækari vernd gegn upprunalegu veirunni og Omicron BA.1 afbrigði hennar í einstaklingum sem hafa áður verið bólusettir eða hafa sýkst af SARS-CoV-2.

Þegar bóluefnin eru gefin hefja frumur líkamans tímabundna framleiðslu á gaddapróteinunum sem ónæmiskerfið lítur á sem framandi fyrirbæri og hefur varnir með því að framleiða mótefni og virkja T-frumur gegn próteinunum. Sú vörn mun síðar koma að gagni til að verja viðkomandi einstakling gegn sýkingu af völdum veirunnar þar sem ónæmiskerfið kemur til með að þekkja gaddapróteinin og ráðast gegn þeim.

Fljótlega eftir bólusetningu eru mRNA sameindir bóluefnisins brotnar niður og verða því ekki eftir í líkamanum.

Ákvörðun um notkun örvunarskammta með uppfærðu bóluefni verður eftir sem áður tekin af heilbrigðisyfirvöldum í hverju landi fyrir sig, rétt eins og gildir um aðrar ákvarðanir um bólusetningar gegn COVID-19.

Nánar í frétt á vef EMA

Landlæknisembættið hefur gefið út leiðbeiningar um bólusetningu gegn COVID-19 fyrir haust 2022

Síðast uppfært: 8. september 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat