Evrópsk verðlaun fyrir sameiginleg norræn umhverfisviðmið

Ísland, Noregur og Danmörk fengu nýlega evrópsk verðlaun fyrir fyrsta samnorræna útboðið á lyfjum, þar sem m.a. var stuðst við umhverfisviðmið. Verðlaunin eru veitt fyrir að vera hvetjandi fyrirmynd fyrir aðrar stofnanir.

Ísland, Noregur og Danmörk hlutu nýlega evrópsk verðlaun fyrir fyrsta samnorræna útboðið á lyfjum, þar sem m.a var stuðst við umhverfisviðmið. Verðlaunin voru afhent á ráðstefnu sem var haldin í Brussel, 20. og 21. september sl. og voru það fulltrúar Amgros í Danmörku sem tóku á móti verðlaununum fyrir hönd landanna.

Þegar Ísland, Noregur og Danmörk auglýstu fyrsta sameiginlega norræna útboðið með umhverfisviðmiðum í janúar 2022, var það gert á grundvelli ítarlegrar vinnu þar sem fulltrúar landanna höfðu náið samráð við fulltrúa lyfjaiðnaðarins og sérfræðinga frá Tækniháskóla Danmerkur.

Norðurlöndin þrjú hlutu verðlaunin í flokki nýsköpunar og innkaupa með þeim rökstuðningi alþjóðlegrar vísindanefndar EHPPA að samstarfið væri framúrskarandi, þýðingamikið, hægt að heimfæra á stærri og minni markaði auk þess að vera hvetjandi fyrirmynd fyrir aðrar stofnanir.

Þetta eru mjög fögur orð um samstarf okkar. Þetta hefur verið mikil vinna og við hefðum aldrei náð svona langt án góðs og náins samtals, skilnings og vilja – þvert á landamæri og hagsmuni. Að því sögðu vil ég taka fram að þetta samstarf um sameiginleg útboð á lyfjum hefur haft mikla þýðingu fyrir Ísland. Því með samstarfinu hafa fleiri lyf verið skráð á íslenskan markað og auk þess hafa útboðsverð lyfja lækkað umtalsvert

Hulda Harðardóttir, verkefnastjóri lyfjainnkaupa hjá innkaupasviði Landspítalans.

Tilefni sameiginlega útboðsins

Tilefni sameinlega útboðsins hjá löndunum þremur var m.a. auknar áskoranir vegna skorts á framboði á lyfjum og hækkandi verðs þeirra. Áskoranir vegna skorts á framboði lyfja snúa einkum að eldri lyfjum sérstaklega á smærri mörkuðum eins og Norðurlöndunum.

EHPPA (The European Health Public Procurement Alliance) eru samtök evrópskra innkaupastofnana sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.
Health Proc Europe eru fagleg samtök og upplýsingabrunnur reynslu og þekkingar einkarekinna og opinberra innkaupastofnana í heilbrigðismálum. Þátttakendur í samtökunum koma frá Austurríki, Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi, Noregi, Portúgal og Sviss.

Síðast uppfært: 5. október 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat