Nýlega var í fjölmiðlum fjallað um lyf sem skilað er í apótek til förgunar. Þar var nefnt að Lyfjastofnun haldi ekki skrá yfir hve miklu magni lyfja sé skilað til apóteka, og hafi ekki eftirlit með að því sem er skilað sé raunverulega fargað. Í ljósi þess sem fram kemur í áðurnefndum fréttaflutningi telur Lyfjastofnun ástæðu til að varpa ljósi á nokkrar staðreyndir.
Framkvæmd förgunar lyfja hjá apótekum
Almennt gildir að lyfjabúðum ber að taka á móti lyfjum sem almenningur skilar þangað og koma til eyðingar með tryggum hætti. Í reglum um móttöku apóteka á lyfjum sem skilað er til förgunar, er ekki gerð krafa um að haldin sé sérstök skrá yfir þau. Vegur þar þyngst sú staðreynd að ekki er hægt að tryggja öryggi starfsfólks apóteka með fullnægjandi hætti við þessa vinnu, en reynslan sýnir að ýmislegt getur fylgt lyfjum sem skilað er, t.d. notaðar sprautunálar. Lyfjastofnun hefur viðurkennt það verklag hjá apótekum að starfsfólk taki á móti lyfjum sem skilað er, t.d. í poka eða öðru íláti, og setji þau strax í ílát sérstaklega merkt „Til eyðingar“.
Tonn á mánuði skv. síðustu könnun
Síðast þegar kannað var það magn lyfja sem komið var með til eyðingar í apótek, nam það þremur tonnum á þriggja mánaða tímabili árið 2017. Ekki er vitað hvort jafn mikið berst alla mánuði ársins, en að því gefnu væri um 12 tonn að ræða árið 2017. Samkvæmt upplýsingum frá lyfsöluleyfishöfum jókst magn þeirra lyfja sem skilað var í kjölfar átaks í janúar 2018. Úr þessu magni mætti hugsanlega draga með frekari varkárni í lyfjaávísunum lækna, en Embætti landlæknis hefur það hlutverk að fylgjast með ávísanavenjum þeirra.
Eftirlit Lyfjastofnunar með starfsemi apóteka
Framkvæmd eftirlits með því hvernig apótek standa að förgun lyfja fer fram með ýmsu móti. Þar vegur þyngst það eftirlit sem viðhaft er með úttekt á starfsemi lyfjabúða. Síðastliðinn fimm ár hefur Lyfjastofnun framkvæmt 93 slíkar úttektir í apótekum. Í þessum úttektum heimsækja tveir sérfræðingar Lyfjastofnunar apótek og fara yfir alla starfsemina, þ.m.t. hvernig staðið er að móttöku og förgun lyfja sem almenningur skilar. Að auki sendir Lyfjastofnun reglulega dreifibréf til apóteka sem birt eru opinberlega á vef Lyfjastofnunar, sem og orðsendingar í tölvupósti til allra lyfsöluleyfishafa þegar þörf krefur.
Umframmagni lyfja ber að skila
Lyfjastofnun hvetur almenning nú sem fyrr til að skila ónotuðum lyfjum í apótek til förgunar. Lyfjum á ekki að farga með öðru heimilissorpi vegna áhrifa þeirra á umhverfið. Nánari upplýsingar um hvernig rétt er að bera sig að má finna á vefnum lyfjaskil.is, m.a. í myndbandi sem sett var saman almenningi til leiðbeiningar.