Heildarsparnaður eftir verðendurskoðun um hálfur milljarður

Nýafstaðin verðendurskoðun Lyfjastofnunar mun leiða til þess að kostnaður vegna lyfja lækkar. Ávinningurinn skilar sér til Sjúkratrygginga, Landspítala og notenda

Samkvæmt lyfjalögum ber Lyfjastofnun að endurmeta forsendur lyfjaverðs reglulega og eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti. Líta skal til verðs sams konar lyfja annars staðar á Norðurlöndum og koma með tillögur um breytingar ef tilefni er til. Nánar er fjallað um útfærslu í reglugerð nr. 1414/2020.

Verð ávísunarskyldra lyfja var endurskoðað á þessu ári

Upphaflega var fyrirhugað að endurskoðun hámarksheildsöluverðs lyfja skyldi fara fram í þrennu lagi en ákveðið hefur verið að fresta þriðja hluta. Hámarksverð á Íslandi í maí 2022 var skoðað með hliðsjón af verði sömu lyfja í viðmiðunarlöndum, og var lyfjafyrirtækjum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum eða andmælum.

Fyrirkomulag

Í fyrsta hluta var endurskoðað verð leyfisskyldra lyfja sem ekki eru með samning við Landspítala, og verð undanþágulyfja með ársveltu yfir 10 milljónir kr. í heildsölu miðað við sölu ársins 2022. Ný verð fyrir þennan hluta tóku gildi í lyfjaverðskrá í október síðastliðnum.

Í síðari hluta var metið verð kostnaðarsamra lyfja í ákveðnum lyfjaflokkum svo sem sykursýkislyfja, segavarnarlyfja, ákveðinna lyfja sem verka á taugakerfi og lyfja fyrir öndunarfæri. Ný verð tóku gildi í þessum flokkum nú í desember.

Áætluð niðurstaða – sparnaður gæti orðið hálfur milljarður króna

Ef gert er ráð fyrir að sala í áðurtöldum flokkum sé á ársgrundvelli svipuð því sem var 2022, má ætla að sparnaður Landspítala vegna fyrsta hluta verðendurskoðunar sé um 230 milljónir kr.

Sparnaður vegna annars hluta verðendurskoðunar gæti orðið ríflega 400 milljónir kr., sem kemur þá til góða Sjúkratryggingum og notendum. Breytt greiðsluþátttaka í blóðsykurs- og þyngdarstjórnunarlyfjum sem tók gildi í nóvember sl. gæti þó orðið til þess að notkun lyfjanna breytist og upphæð ávinnings verði heldur lægri.

Heildarsparnaður lyfjakostnaðar árið 2023 vegna verðendurskoðunarinnar miðað við heildsöluverð, er því áætlaður um hálfur milljarður króna á ársgrundvelli.

Síðast uppfært: 18. desember 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat