Í nýjum lyfjalögum sem tóku gildi 1. janúar sl. er að finna ákvæði í 52. grein þar sem fram kemur að að Lyfjastofnun geti heimilað lyfjafræðingum að breyta ávísuðu lyfi í undanþágulyf í sérstökum tilvikum þegar skortur er á markaðssettu lyfi.
Heimildin nýtt í fyrsta sinn - snýr að Furadantin 50 mg töflum
Í lok síðustu viku veitti Lyfjastofnun lyfjafræðingum í apótekum heimild til að breyta lyfjaávísun læknis úr Furadantin í undanþágulyfið Uro-Tablinen 50 mg töflur 50 stk með vörunúmerinu 982456. Þetta er gert vegna langvarandi skorts á skráða lyfinu Furadantin 50 mg töflur í 100 stk. og 15 stk. pakkningum. Heimildin gildir til 1. maí 2021, eða skemur ef skráða lyfið verður fáanlegt fyrr. Þessi ákvörðun Lyfjastofnunar byggir sem fyrr segir á 52. gr. lyfjalaga nr. 100/2020.
Fréttir birtar þegar heimild verður nýtt
Fyrirhugað er að birta fréttir hér á vefnum þegar fyrrgreind heimild er nýtt. Það er gert til að vekja athygli lækna og lyfjanotenda á breytingu lyfjaávísana, en að auki verða lyfjafræðingar í apótekum látnir vita með sérstökum skilaboðum. Tilkynning um heimildina hefur þegar verið send til allra apóteka vegna skorts á Furadantini.
Ráð til lækna
- Undanþágulyfið Uro-Tablinen 50 mg töflur 50 stk er samsvarandi meðferð og skráða lyfið Furadantin 50 mg töflur 100 stk / 15 stk.
- Á meðan skráða lyfið Furadantin 50 mg töflur er ófáanlegt er lyfjafræðingum í apótekum heimilt að breyta ávísuninni í undanþágulyfið Uro-Tablinen í sama styrkleika og lyfjaformi.
Ráð til apóteka
- Þegar lyfjafræðingar nýta þessa heimild við afgreiðslu lyfsins er mikilvægt að þeir upplýsi lyfjanotendur um að lyfið hafi ekki íslenskt markaðsleyfi ásamt því að gera grein fyrir mögulegum aukaverkunum lyfsins og öðrum upplýsingum sem kunna að vera nauðsynlegar við notkun lyfsins.
- Upplýsingar um virka efnið nítrófúrantóín er að finna á www.serlyfjaskra.is sem hluti af samþykktum eiginleikum lyfs og í fylgiseðli fyrir Furadantin á íslensku.
Ráð til lyfjanotenda
- Ef læknir hefur ávísað skráða lyfinu Furadantin (50 mg töflur) á þig er hugsanlegt að þér verði boðið undanþágulyfið Uro-Tablinen (50 mg töflur) í stað skráða lyfsins þegar þú ætlar að leysa lyfið út í apóteki. Undanþágulyfið hefur sama virka innihaldsefni í sama styrkleika og Furadantin en það getur verið munur á hjálparefnunum.
- Fylgdu leiðbeiningum um notkun lyfsins sem þú færð hjá lækni og/eða lyfjafræðingi í apóteki.
- Nánari upplýsingar um undanþágulyf má nálgast á vef stofnunarinnar