Til áréttingar vegna nýrrar reglugerðar um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja

Þann 1. júlí nk. gengur í gildi reglugerð nr. 1266/2017 um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja með síðari breytingum. Hér eru nokkur atriði sem vert er að vekja athygli á.

Til lækna

  • Rafrænar lyfjaávísanir verða meginreglan en pappírslyfseðlar verða enn heimilir með ákveðnum takmörkunum. Heimilt er að ávísa lyfi með pappírslyfseðli ef einungis er um eina afgreiðslu að ræða. Frá og með 1. september 2018 verður óheimilt að ávísa með pappírslyfseðli ávana- og fíknilyfi til afgreiðslu hér á landi. 

 

  • Ávísun lyfja í síma miðast við sem nemur einni pakkningu af lyfi. Ávísun á ávana- og fíknilyfi gegnum síma verður enn sem áður ekki heimil. 

 

  • Fjölnota lyfjaávísanir eftirritunarskyldra lyfja verða nú heimilar. Lækni er heimilt að ávísa allt að 12 mánaða skammti með einni lyfjaávísun en apóteki er ekki heimilt að afgreiða og afhenda viðskiptavini nema 30 daga skammt hverju sinni.  Fram til 1. febrúar 2019 takmarkast afgreiðsla hverrar slíkrar lyfjaávísunar þó við fjórar afgreiðslur á ári. Þetta þýðir í raun að fjölnota lyfjaávísun eftirritunarskylds lyfs gildir í fjóra mánuði (þ.e. hana má afgreiða 4x30), en frá og með 1. febrúar 2019 geta þær gilt í allt að 12 mánuði. Afgreiðslutakmörkun fyrir eftirritunarskyld lyf mun áfram miðast við 30 daga skammt hverju sinni. 

 

  • Ef fyrir er í gildi lyfjaávísun í lyfjaávísanagátt fyrir ávana- og fíknilyfi er ekki heimilt að útbúa aðra lyfjaávísun nema að ávísað sé á annan styrkleika lyfsins eða annað lyf með öðru virku innihaldsefni eða fella eigi úr gildi gildandi lyfjaávísun og útbúa nýja.

 

  • Hvað varðar lyfjaávísanir á eftirritunarskyld lyf til erlendra ferðamanna eftir 1. september 2018 skal þess getið að verið er að vinna að lausn í rafræna lyfjaávísanakerfinu sem gerir kleift að ávísa eftirritunarskyldum lyfjum til þeirra sem ekki hafa íslenska kennitölu. Lyfjastofnun mun miðla upplýsingum um það síðar.

Til apóteka


  • Lyfseðlar sem gefnir eru út fyrir 1. júlí 2018 halda gildi sínu. Þetta þýðir að 30 daga takmörkun á afgreiddu magni af eftirritunarskyldu lyfi á ekki við um þessa lyfseðla. Heimilt er að afgreiða pappírslyfseðil upp á ávana- og fíkniefni. Ákvæði um að lyfjaskírteini skuli liggja fyrir áður en lyf í ATC-flokkum N06BA01 (amphetaminum) og N06BA04 (methylphenidatum) eru afgreidd, á ekki við um lyfseðla sem gefnir eru út fyrir 1. júlí 2018.  Með öðrum orðum má segja, að afgreiða skal lyfseðla sem voru gefnir út fyrir 1. júlí .2018 í samræmi við ákvæði reglugerða nr. 421/2017 og nr. 422/2017. Þannig þarf ekki að athuga stöðu lyfjaskírteinis fyrir lyf í ATC-flokkum N06BA01 & N06BA04, og afgreiða má þriggja mánaða skammt í einu lagi. Sama á við eldri skömmtunarlyfjaávísanir sem voru gefnar út fyrir 1. júlí 2018, þ.e ekki er þörf á að athuga stöðu lyfjaskírteinis.

 

  • Lyfjaávísanir á lyf sem innihalda amfetamín og metýlfenídat má ekki afgreiða nema viðkomandi einstaklingur sé með gilt lyfjaskírteini frá Sjúkratryggingum Íslands.  Lyfjaskírteini er gefið út að fenginni umsókn læknis, að uppfylltum vinnureglum frá SÍ. Sjá nánar á vef Sjúkratrygginga.  Þessi takmörkun er ekki við um lyfseðla á umrædd lyf sem gefnir eru út fyrir 1. júlí 2018. 

 

  • Frumriti lyfseðla eftirritunarskyldra lyfja þarf ekki að skila til Lyfjastofnunar eftir 1. september 2018. 

 

  • Lyfjaávísanir lækna sem hafa starfsleyfi í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eru gildar hér á landi, að undanskyldum þeim sem ávísað er á ávana- og fíknilyf. Óheimilt er að afgreiða slíkar lyfjaávísanir hérlendis. 

 

Frekari upplýsingar um nýju reglugerðina er að finna undir Spurt og svarað

Spurningar varðandi reglugerðina

Vakni spurningar um túlkun og framkvæmd reglugerðarinnar má senda þær til Lyfjastofnunar á netfangið [email protected] merkt reglugerð 1266/2017 í efnislínu. Öllum spurningum verður svarað en einnig verða spurningar almenns eðlis birtar í Spurt og svarað á vef Lyfjastofnunar, án persónugreinanlegra upplýsinga.

Síðast uppfært: 29. júní 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat