Landamærahindranaráð Norrænu ráðherranefndarinnar leggur til breytingar á tilskipun Evrópusambandsins sem fjallar um fylgiseðla lyfja

Landamærahindranaráð Norrænu ráðherranefndarinnar (d. Grænsehindringsrådet) hefur undanfarið rætt um hvort mögulegt sé að fá reglum Evrópusambandsins breytt þannig að fylgiseðlar með lyfjum megi vera rafrænir. Reglur þessar kveða á um að fylgiseðill á tungumáli viðkomandi lands skuli fylgja með hverri lyfjapakkningu.

Í frétt í Morgunblaðinu frá 9. maí segir Siv Friðleifsdóttir, fulltrúi Íslands í landamærahindranaráðinu, að þessi krafa komi í veg fyrir að flytja megi til landsins öll lyf með einföldum hætti því þýða þurfi fylgiseðilinn yfir á íslensku og setja í lyfjapakkningarnar sem svo þýði að umpakka þarf hluta þeirra lyfja, sem innflutt eru á, Íslandi.

Fyrir Íslands hönd hefur Siv talað fyrir breytingu á þessum reglum Evrópusambandsins þannig að þær heimili að rafrænir fylgiseðlar fylgi með lyfjum. Siv telur að slíkt fyrirkomulag yrði umhverfisvænna og notendavænna en núverandi fyrirkomulag auk þess sem mætti lækka lyfjakostnað. Því til viðbótar telur Siv að hægt væri að prenta fylgiseðla samhliða afgreiðslu á lyfjum á því tungumáli sem notandinn skilur.  „Það er auðveldara að breyta fylgiseðlinum ef nýjar upplýsingar um lyfið koma fram, án þess að þurfa að umpakka og henda gamla seðlinum.”

Samkvæmt sömu frétt Morgunblaðsins hefur Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, kynnt málið á fundi Norrænna ráðherra á sviði heilbrigðis- og félagsmála.

Síðast uppfært: 11. maí 2017
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat