Lyfjastofnun Evrópu undirbýr flutning til Amsterdam

Eins og fram hefur komið
verða höfuðstöðvar Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) fluttar frá Lundúnum vegna útgöngu
Breta úr Evrópusambandinu. Síðla árs 2017 var kosið um hver framtíðarstaður EMA
yrði að Brexit loknu en nítján borgir sóttust eftir að fá stofnunina til sín. Amsterdam
varð fyrir valinu og nú styttist í að starfsemin verði flutt. Hollensk yfirvöld
hafa þegar afhent forstjóra EMA bygginguna sem mun hýsa stofnunina
til bráðabirgða, en framtíðarhúsnæðið er í smíðum. Flutt verður frá Lundúnum 1.
mars nk, en þar hafa höfuðstöðvarnar verið frá stofnun Lyfjastofnunar Evrópu
árið 1995.

Fánar teknir niður
Síðastliðinn föstudag, 25.
janúar, fór fram táknræn athöfn þegar fánar Evrópusambandsríkjanna sem blakt
höfðu við hún fyrir framan höfuðstöðvarnar í Lundúnum um árabil, voru teknir
niður. Guido Rasi forstjóri EMA þakkaði við það tækifæri breskum yfirvöldum
fyrir stuðninginn við starfsemina og sagði Breta hafa verið góða gestgjafa.

Síðast uppfært: 30. janúar 2019
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat