Samkvæmt lyfjalögum fer dreifing lyfja fyrst og fremst fram í apótekum, en Lyfjastofnun hefur einnig nýtt heimild í lögunum þannig að undir sérstökum kringumstæðum má selja tiltekin lausasölulyf í almennum verslunum.
Skiptast á svefnlyfjum fyrir börn
Í fréttum þann 9. ágúst sl. kom fram að í ýmsum hópum á Facebook, væru foreldrar að óska eftir og bjóða fram svefnlyf fyrir börn, annað hvort ókeypis eða gegn gjaldi. Í viðtali við Rúnu Hauksdóttur Hvannberg forstjóra Lyfjastofnunar í fréttinni varaði hún eindregið við slíkri dreifingu lyfja, slíkt væri ekki aðeins bannað heldur gæti varið varasamt.
Öll umsýsla lyfja lýtur afar ströngum kröfum
Lyf eru enginn venjulegur varningur og víðast hvar um heiminn gilda lög og reglugerðir til að skýra þær kröfur sem gerðar eru við framleiðslu, dreifingu og geymslu lyfja. Lyfjastofnanir um heim allan hafa eftirlit með því að þessum kröfum sé fylgt í hvívetna. Bregði eitthvað út af er gripið til sérstakra ráðstafana.
Alvarleg hætta getur skapast með dreifingu manna á milli
Ef fólk deilir lyfjum sín á milli getur skapast alvarleg hætta, sérstaklega ef um ávísanaskyld lyf er að ræða. Slíkum lyfjum er ávísað af lækni til notkunar fyrir tiltekinn einstakling, sem hann hefur metið hvers þurfi með út frá líkamsátandi viðkomandi, hvaða lyf og í hvaða skammti. Lyfið er því ekki ætlað til notkunar fyrir aðra.
Þá er þeim sem hafa heimild til að dreifa lyfjum og selja, gert að fylgja skýrum reglum um að þau séu geymd t.d. við það hita- og birtustig sem tiltekið er fyrir hvert lyf. Við miðlun lyfja manna á milli er engan veginn tryggt að þessa hafi verið gætt.
Að auki er óvíst að lyfið sem verið er að afhenda sé það sem sagt er, ekki er með vissu hægt að vita hvað er verið að kaupa eða þiggja.
Afar mikilvægt er því að fara að reglum til að nálgast lyf sem þörf er fyrir. Röng notkun lyfs getur skapað mikla hættu.