Lyfjastofnun og lyfjastofnunin á Möltu (Malta Medicines Authority) hafa gert með sér samkomulag um samvinnu á sviði lyfjamála. Í samkomulaginu er m.a. fjallað um gagnkvæma þjálfun sérfræðinga stofnananna og að kannaðir verði möguleikar á samstarfi í tengslum við lyfjaeftirlit.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar segir þjóðirnar líkar að mörgu leyti. „Bæði Malta og Ísland eru smá eyríki staðsett í evrópsku en jafnframt alþjóðlegu umhverfi. Vegna þess að báðar stofnanirnar nýta mikið samstarf og samnýtingu auðlinda til að ná markmiðum sínum er það til hagsbóta fyrir báða aðila að auka samvinnu með því að deila sérþekkingu sín á milli. Maltneska lyfjastofnunin hefur hingað til reynst góður samstarfsaðili og við hlökkum til að þróa og styrkja samstarfið við Möltu með hag sjúklinga í huga.“
Síðastliðin ár hefur maltneska lyfjastofnunin undirritað fjölda samninga við aðrar stofnanir. Anthony Serracino Inglott, forstjóri maltnesku lyfjastofnunarinnar, segir samkomulagið við Lyfjastofnun lið í að styrkja stöðu sinnar stofnunar sem sérfræðistofnun á sviði lyfjamála. Slíkt skipti sérstaklega máli nú í ljósi nýlegrar þróunar og útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. „Það var auðvelt að koma á fót samstarfi við Lyfjastofnun og við hlökkum til að vinna saman“ sagði Anthony Serracino Inglott.
Helena Dalli, ráðherra heilbrigðismála á Möltu, fagnar samstarfinu og segir að samvinna af þessum toga geti leitt til hagkvæmra niðurstaðna, til dæmis í fjölgun markaðssettra lyfja. Samkomulagið milli Lyfjastofnunar og lyfjastofnunar Möltu var undirritað á fundi forstjóra evrópskra lyfjastofnanna (Heads of Medicines Agencies) sem haldinn var í Valletta á Möltu dagana 10.-12. maí sl.