Miðlun upplýsinga í apóteki – mikilvægur þáttur starfseminnar

Því hlutverki gegna fyrst og fremst lyfjafræðingar og lyfjatæknar

Í nýjum lyfjalögum sem gildi tóku 1. janúar síðastliðinn er lögð áhersla á mikilvægi þess að veita almenningi upplýsingar um lyf og notkun þeirra. Þetta er undirstrikað í reglugerð um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja frá 2020. Þar telst upplýsingamiðlun hluti af afhendingu lyfs samkvæmt skilgreiningu.

Þessi áhersla löggjafans og stjórnvalda skýrist af því að lyf eru ekki eins og hver annar varningur, þau innihalda mikilvirk efni sem með rangri notkun eða meðhöndlun geta valdið heilsutjóni. Því er í löggjöf flestra ríkja að finna strangar reglur um framleiðslu, dreifingu og geymslu lyfja; dreifing á hér líka við um afgreiðslu og afhendingu lyfja í apóteki. Hérlendar reglur um lyf eru annars vegar evrópsk lyfjalöggjöf, hins vegar íslensk lyfjalög og reglugerðir.

Skylt að hafa lyfjatækna að störfum

Ljóst er að þeir sem best eru til þess fallnir að miðla upplýsingum um lyf og notkun þeirra í apótekum, eru starfsmenn sem hlotið hafa menntun í faginu. Um skyldur og ábyrgð lyfjafræðinga í apótekum hefur áður verið fjallað í frétt á vef Lyfjastofnunar, en lyfjatæknar teljast einnig til heilbrigðisstétta og hafa menntun sem nýtist vel til uppýsingamiðlunar. Hérlendis er boðið upp á lyfjatæknanám í Fjölbrautaskólanum í Ármúla þar sem kennd eru undirstöðuatriði í lyfjafræði og skyldum heilbrigðisgreinum.

Í lyfjalögunum frá 2020 segir í 40. gr. að lyfsöluleyfishöfum sé skylt að hafa í þjónustu sinni lyfjatækna fáist þeir á annað borð til starfa á hverjum stað; í lögskýringargögnum í umfjöllun um 40. greinina er ákvæðið skýrt m.a. með þessum orðum: „… er gengið út frá því lyfsöluleyfishafar hafi í sinni þjónustu a.m.k. einn lyfjatækni á þeim svæðum landsins þar sem slíkt er mögulegt.“

Lyfjatæknar hafa upplýsingaskyldu gagnvart sjúklingi samkvæmt ákvæðum laga um réttindi sjúklinga, eins og fram kemur í reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lyfjatækna frá árinu 2012.

Hjá Embætti landlæknis má sjá í starfsleyfaskrá að 375 lyfjatæknar hafa gilt starfsleyfi. Árið 2020 voru 56 lyfjatæknar starfandi í 77 apótekum.

Síðast uppfært: 28. september 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat