Mikilvægi þess að tilkynna grun um aukaverkanir af bóluefnum gegn COVID-19

Lyfjastofnun áréttar að stofnunin getur ekki fjallað um einstaka tilvik vegna þeirra laga sem gilda um persónuvernd.

Lyfjastofnun birtir alla virka daga tölur yfir tilkynntar aukaverkanir af bóluefnum við COVID-19, bæði vegna gruns um alvarlegar aukaverkanir og þær sem ekki teljast alvarlegar.

Fjöldi tilkynntra aukaverkana segir ekki til um tíðni þeirra eða öryggi bóluefna

Lyfjastofnun áréttar að stofnunin getur ekki fjallað um einstaka tilvik vegna þeirra laga sem gilda um persónuvernd. Mikilvægt er að hafa hugfast að fjöldi tilkynninga vegna gruns um aukaverkun eftir bólusetningu segir ekki til um tíðni aukaverkana eða öryggi bóluefnanna, en tilkynningarnar eru afar mikilvægur þáttur í að fylgjast með og geta metið öryggi bóluefnanna eftir að notkun þeirra hefst.

Lyfjastofnun heldur gagnagrunn yfir þær aukaverkanir sem tilkynntar eru til stofnunarinnar og eru tilkynningarnar einnig sendar inn í Eudravigilance (EV), aukaverkanagrunn Lyfjastofnunar Evrópu, án allra persónugreinanlegra upplýsinga.

Hvert tilvik rannsakað til að hægt sé að bregðast við

Metið er hvort líkur séu á því að orskakasamband sé á milli bólusetningarinnar og þess tilviks sem tilkynnt er. Nauðsynlegt er að rannsaka og meta hvert tilvik fyrir sig. Þetta stuðlar að því hægt sé að bregðast skjótt við ef nýjar og/eða alvarlegar aukaverkanir koma fram eftir að notkun á bóluefni hefst. Það er því afar mikilvægt að tilkynna grun um aukaverkun til Lyfjastofnunar eins fljótt og unnt er, sér í lagi ef hún er alvarleg eða ný (kemur ekki fram í fylgiseðli viðkomandi bóluefnis).

Heilbrigðisstarfsfólk hvatt til að tilkynna aukaverkanir

Heilbrigðisstarfsfólk er sérstaklega hvatt til að tilkynna ef það verður vart við aukaverkanarnir af bóluefnunum, en mikilvægt er að árétta að allir geta tilkynnt um aukaverkun til Lyfjastofnunar, ekki síst þeir sem hafa verið bólusettir eða aðstandendur þeirra. Lyfjastofnun upplýsir embætti landlæknis og sóttvarnarlækni um allar alvarlegar aukaverkanatilkynningar af bóluefnunum og eru öll tilvik mögulegra alvarlegra aukaverkana skoðuð gaumgæfilega.

Síðast uppfært: 10. nóvember 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat