Ný lyf á markað 1.apríl 2020

Ný lyf á markað 1. apríl 2020

Ný lyf

Amlodipin Medical Valley, töflur. Hver tafla inniheldur amlódipínbesílat sem jafngildir 5 mg eða 10 mg af amlódipíni. Lyfið er ætlað til meðferðar við háþrýstingi, langvinnri stöðugri hjartaöng og æðakrampaöng (Prinzmetals hjartaöng). Lyfið er samheitalyf lyfsins Norvasc. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Cutaquig, Einn ml inniheldur 165 mg af venjulegu immúnóglóbúlíni úr mönnum (hreinleiki a.m.k. 95% IgG). Dreifing IgG í undirflokka er áætluð eftirfarandi: IgG1 71%, IgG2 25%, IgG3 og IgG4 2% og er lyfið framleitt úr blóðvökva úr blóðgjöfum (mönnum). Cutaquig inniheldur 33,1 mg af natríum í hverju 48 ml hettuglasi og 13,8 mg í hverju 20 ml hettuglasi. Lyfið er ætlað sem uppbótarmeðferð hjá fullorðnum, börnum og unglingum (0-18 ára) við: Frumkomnu ónæmisbrestsheilkenni ásamt skertri mótefnamyndun (e. primary immunodeficiency syndrome), gammaglóbúlínskorti og endurteknum bakteríusýkingum hjá sjúklingum með langvinnt eitilfrumuhvítblæði (e. chronic lymphocytic leukaemia), þar sem meðferð með fyrirbyggjandi sýklalyfjum hefur brugðist eða er frábending, gammaglóbúlínskorti og endurteknum bakteríusýkingum hjá sjúklingum með mergæxli (multiple myeloma) og gammaglóbúlínskorti hjá sjúklingum fyrir og eftir ósamgena blóðmyndandi stofnfrumuígræðslu (haematopoietic stem cell transplatation). Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í ónæmisfræði, blóðsjúkdómum og krabbameinslækningum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Dasergin, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 5 mg af desloratadini. Lyfið inniheldur laktósa. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Dasergin er ætlað fyrir fullorðna og unglinga, 12 ára og eldri, til að draga úr einkennum ofnæmisnefkvefs og ofsakláða. Lyfið er samheitalyf lyfsins Aerius og er lausasölulyf.

Lomuspray, nefúði, lausn. Lyfið inniheldur ipratropiumbrómíð 21 míkróg/skammt sem ipratropiumbrómíðeinhýdrat. Lomuspray er ætlað til að draga úr einkennum nefrennslis (vatnskenndrar ofseytingar) vegna nefslímubólgu. Markaðsleyfi lyfsins byggir á Atrovent nefúða og er veitt með upplýstu samþykki (e. informed consent). Lyfið er lausasölulyf.

Melleva, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 150 míkróg levónorgestrel og 30 míkróg etinýlestradíól. Lyfið inniheldur laktósa. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er getnaðarvörn. Við ákvörðun um að ávísa Melleva skal taka tillit til núverandi áhættuþátta konunnar, einkum hvað varðar bláæðasegarek (VTE) og hvernig hættan á bláæðasegareki með Melleva er samanborin við aðrar samsettar hormónagetnaðarvarnir. Lyfið er samheitalyf lyfsins Microgynon og er lyfseðilsskylt.

Olumiant, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 2 mg eða 4 mg af baricítíníbi. Lyfið er ætlað til meðferðar á meðalvirkri eða alvarlega virkri iktsýki hjá fullorðnum sem ekki hafa svarað nægilega eða haft óþol fyrir einu eða fleirum sjúkdómstemprandi gigtarlyfjum. Nota má Olumiant sem einlyfja meðferð eða samhliða metótrexati. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í gigtarsjúkdómum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Trazimera, stofn fyrir innrennslisþykkni, lausn. Eitt hettuglas inniheldur 150 mg eða 420 mg af trastuzúmabi, mannaaðlöguðu IgG1 einstofna mótefni sem framleitt er í spendýrafrumurækt (úr eggjastokkum kínverskra hamstra) og hreinsað með skiljun, þar á meðal með sértækri veiruóvirkjun og brottnámi. Lyfið er ætlað til notkunar við brjóstakrabbameini með meinvörpum, brjóstakrabbameini án meinvarpa og magakrabbameini með meinvörpum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er líftæknilyfshliðstæða lyfsins Herceptin og er lyfseðilsskylt.

Nýtt lyfjaform

Imbruvica, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 140 mg, 280 mg, 420 mg eða 560 mg af ibrutinib. Lyfið inniheldur laktósa. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er ætlað sem einlyfjameðferð eða í samsettri meðferð við ýmsum krabbameinum. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum og blóðsjúkdómum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Síðast uppfært: 18. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat