Ný lyf á markað í júní

Ný lyf á markað 1. júní 2020

Ný lyf

Amgevita, stungulyf, 40 mg lausn í áfylltum lyfjapenna. Hver stakur skammtur í áfylltum lyfjapenna inniheldur 40 mg af adalimumabi í 0,8 ml (50 mg/ml) af lausn. Lyfið er ætlað til notkunar við iktsýki, sjálfvakinni fjölliðagigt hjá börnum, festumeinstengdri liðagigt, hryggikt, áslægum hryggbólgusjúkdóm án vísbendinga um hryggikt samkvæmt myndgreiningu, sóraliðbólgu, sóra, skellusóra hjá börnum, graftarmyndandi svitakirtlabólgu, Crohns sjúkdómi, Crohns sjúkdómi hjá börnum, sáraristilbólgu, æðahjúpsbólgu og æðahjúpsbólgu hjá börnum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í gigtarlækningum, húðsjúkdómum, meltingarsjúkdómum, gigtarsjúkdómum barna, ónæmisfræði og augnlækningum. Lyfið er líftæknilyfshliðastæða lyfsins Humira og er lyfseðilsskylt.

Atazanavir Krka, hörð hylki. Hvert hylki inniheldur 300 mg atazanavíri sem súlfat. Lyfið inniheldur laktósa einhýdrat. Ef óþol fyrir einhverjum sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er gefið samhliða rítónavír í litlum skömmtum í samsettri meðferð með öðrum andretróveirulyfjum og er ætlað til meðferðar á fullorðnum og börnum, 6 ára og eldri, með HIV-1 sýkingu. Ávísun lyfins er bundin sérfræðingum í smitsjúkdómum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Reyataz og er lyfseðilsskylt.

Beovu, stungulyf, lausn í áfylltri sprautu. Hver áfyllt sprauta inniheldur 19,8 mg brolucizumab í 0,165 ml lausn. Það gefur nothæft magn fyrir stakan skammt af 0,05 ml lausn sem inniheldur 6 mg brolucizumab. Lyfið er ætlað fullorðnum til meðferðar við nýæðamyndandi (votri) aldurstengdri hrörnun í augnbotnum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf, er sjúkrahúslyf og lyfseðilsskylt.

Darunavir Medical Valley, í tveimur styrkleikum 600 mg og 800 mg, 600 mg: Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 600 mg af darunaviri sem darunavirprópýlenglýkolat. Lyfið, gefið ásamt ritonaviri í lágskömmtum, er ætlað til samsettrar meðferðar með öðrum andretróveirulyfjum til meðhöndlunar handa sjúklingum með HIV-1 veirusýkingu. 800 mg: Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 800 mg af darunaviri sem darunavirprópýlenglýkólat. Lyfið, gefið ásamt lágskammta ritonaviri, er ætlað til samsettrar meðferðar með öðrum andretróveirulyfjum handa sjúklingum með HIV-1 veirusýkingu. Einnig er lyfið, gefið ásamt cobicistati, ætlað til samsettrar meðferðar með öðrum andretróveirulyfjum við HIV-1 veirusýkingu hjá fullorðnum. Báðir styrkleikar Darunarvir Medical Valley innihalda laktósa. Ef óþol fyrir einhverjum sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Bæði lyfin innihalda einnig própýlenglýkól. Darunavir Medical Valley 600 mg inniheldur jafnframt Sunset Yellow FCF Aluminum Lake (E110) sem getur valdið ofnæmisbrögðum. Ávísun lyfjanna er bundin við sérfræðinga í smitsjúkdómum. Lyfin eru samheitalyf lyfsins Prezista og eru lyfseðilsskyld.

Docetaxel Accord, 160 mg/8 ml innrennslisþykkni, lausn. Eitt hettuglas með 8 ml af innrennslisþykkni inniheldur 160 mg af dócetaxeli. Lyfið inniheldur allt að 3,16 g af vatnsfríu etanóli (alkóhóli) í hverju hettuglasi, samsvarandi 80 ml bjórs eða 33 ml léttvíns. Lyfið er skaðlegt fyrir áfengissjúklinga. Þungaðar konur, konur með barn á brjósti, börn og áhættuhópar, t.d. sjúklingar með lifrarsjúkdóma eða flogaveiki, þurfa að hafa í huga að lyfið inniheldur etanól. Lyfið er ætlað til meðferðar við brjóstakrabbameini, lungnakrabbameini, sem er ekki af smáfrumugerð, blöðruhálskirtilskrabbameini, kirtilkrabbameini í maga og krabbameini á höfði og hálsi. Lyfið er samheitalyf lyfsins Taxotere. Lyfið er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt.

Duta Tamsaxiro, hörð hylki. Hvert hart hylki inniheldur 0,5 mg dútasteríð og 0,4 mg tamsúlósínhýdróklóríð sem jafngildir 0,367 mg af tamsúlósíni. Lyfið inniheldur sojalesitín. Ekki skal nota lyfið ef sjúklingur er með ofnæmi fyrir jarðhnetum eða soja. Lyfið inniheldur jafnframt 299 mg af própýlenglýkóli í hverju hylki. Lyfið er ætlað til meðferðar við miðlungsmiklum eða verulegum einkennum af völdum góðkynja stækkunar á blöðruhálskirtli. Einnig til að draga úr hættu á bráðri þvagteppu og þörf fyrir skurðaðgerð hjá sjúklingum með miðlungsmikil eða veruleg einkenni af völdum góðkynja stækkunar á blöðruhálskirtli. Lyfið er samheitalyf lyfsins Duodart og er lyfseðilsskylt.

Ecansya, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 150 mg eða 500 mg af capecítabíni. Í lyfinu er laktósi. Ef óþol fyrir einhverjum sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er notað við ýmsum krabbameinum, meðal annars krabbameini í ristli, maga og brjóstum. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Xeloda og er lyfseðilsskylt.

Efavirenz/Emtricitabine/Tenofovir disoproxil Krka, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 600 mg af efavírenzi, 200 mg af emtrícítabíni og 245 mg af tenófóvír tvísóproxíli sem súkkínati. Lyfið er ætlað til meðferðar á HIV-1 veirusýkingu hjá fullorðnum 18 ára og eldri með veirufræðilega bælingu HIV-1 RNA stiginu <50 eintök/ml á yfirstandandi samsettri meðferð þeirra gegn retróveirum, í meira en 3 mánuði. Ávísun lyfsins er bundin sérfræðingum í smitsjúkdómum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Atripla og er lyfseðilsskylt.

Emtricitabine/Tenofovir disoproxil Mylan, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 200 mg af emtrícítabíni og 245 mg af tenófóvír tvísóproxíli sem jafngilda 300 mg af tenófóvír tvísóproxíl maleati. Lyfið inniheldur laktósa, ef óþol fyrir einhverjum sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er ætlað sem meðferð gegn HIV-1 sýkingu og sem fyrirbyggjandi meðferð fyrir útsetningu á HIV-1 sýkingu. Ávísun lyfsins er bundin sérfræðingum í smitsjúkdómum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Truvada og er lyfseðilsskylt.

Erlotinib WH, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 100 mg eða 150 mg af erlótiníbi sem erlótiníbhýdróklóríð. Lyfin innihalda laktósa. Hafi óþol fyrir einhverjum sykrum verið staðfest, skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er ætlað til meðferðar á lungnakrabbameini sem ekki er af smáfrumugerð og krabbameini í brisi. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Tarceva og er lyfseðilsskylt.

Etópósíð Accord, 20 mg/ml innrennslisþykkni, lausn. Hvert 25 ml hettuglas inniheldur 500 mg af etopósíði. Lyfið inniheldur etanól (alkóhól) Það er skaðlegt sjúklingum sem þjást af áfengissýki eða heilaskaða, þunguðum konum, konum með barn á brjósti, börnum og áhættuhópum á borð við sjúklinga með lifrarsjúkdóm eða flogaveiki. Einnig inniheldur lyfið 30 mg/ml benzýlalkóhól. Notkun benzýlalkóhóls í bláæð hefur verið sett í samhengi við alvarlegar aukaverkanir, þ.m.t. öndunarvandamál sem nefnist andkafaheilkenni hjá ungum börnum. Ekki skal gefa það nýfæddum börnum eða nota það lengur en í eina viku hjá ungum börnum yngri en 3 ára, nema læknir mæli með því. Einnig getur benzýlalkóhól valdið ofnæmisviðbrögðum. Lyfið er ætlað til notkunar við krabbameini í eistum, smáfrumukrabbameini í lungum, Hodgkins eitlaæxli, öðrum eitlaæxlum en af Hodgkins gerð, bráðu kyrningahvítblæði, fellibelgsvefjaþungunum og krabbameini í eggjastokkum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Vepesid, er sjúkrahúslyf og er lyfseðilssskylt.

Inflectra, 100 mg stofn fyrir innrennslisþykkni, lausn. Eitt hettuglas inniheldur 100 mgaf infliximabi. Eftir blöndun inniheldur hver ml 10 mg af infliximabi. Lyfið er blendings manna-músa IgG1 einstofna mótefni sem er myndað í músa blendingsæxlisfrumum með DNA samrunaerfðatækni. Lyfið er ætlað til notkunar við iktsýki, Crohns sjúkdómi hjá fullorðnum, Crohns sjúkdómi hjá börnum, sáraristilbólgu, sáraristilbólgu hjá börnum, hryggikgt, sóraliðagigt og psoriasis. Lyfið er líftæknilyfshliðstæða lyfsins Remicade og er sjúkrahúslyf. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Irinotecan Accord, 20 mg/ml innrennslisþykkni, lausn. Einn ml af þykkni inniheldur 20 mg irinótekanhýdróklóríðþríhýdrati sem jafngildir 17,33 mg af irinótekani. Hvert hettuglas af 25 ml inniheldur 500 mg af irinótekanhýdróklóríðþríhýdrati. Lyfið er ætlað til meðferðar hjá sjúklingum með langt gengið krabbamein í ristli og endaþarmi. Lyfið er samheitalyf lyfsins Campto innrennslisþykknis sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi. Lyfið er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt.

Sumatriptan Apofri, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur sumatriptan súkkínat, sem jafngildir 50 mg af sumatriptani. Lyfið inniheldur laktósa. Ef óþol fyrir einhverjum sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er ætlað til bráðameðferðar við mígreniköstum, með eða án fyrirboðaeinkenna. Lyfið er samheitalyf lyfsins Imigran og er lausasölulyf.

Taltz, 80 mg stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna. Hver áfylltur lyfjapenni inniheldur 80 mg af ixekizumab í 1 ml. Ixekizumab er manngert einstofna mótefni sem framleitt er með erfðatækni í CHO-frumum. Lyfið er ætlað til notkunar við skellusóra, sóraliðagigt og áslægum hryggbólgusjúkdómi. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í húðsjúkdómum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Treo Hindbær, freyðitöflur. Hver freyðitafla inniheldur 500 mg af asetýlsalicýlsýru og 50 mg af koffíni. Lyfið inniheldur 276 mg af natríum í hverri freyðitöflu, þetta jafngildir 14% af daglegri hámarksinntöku natríums úr fæðu samkvæmt ráðleggingum fyrir fullorðna. Ræða þarf við lækni áður en lyfið er notað ef sjúklingi hefur verið ráðlagt mataræði sem inniheldur lítið salt. Lyfið inniheldur maltódextrín. Ef óþol fyrir einhverjum sykrum hefur verið staðfest, skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið inniheldur auk þess 0,2 mg af sorbitóli í hverri freyðitöflu. Lyfið er ætlað til notkunar við vægum verkjum og mígreni. Markaðsleyfi lyfsins er veitt á þeim forsendum að hefð er fyrir notkun þess. Lyfið er lausasölulyf.

Valganciclovir Medical Valley, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 496,3 mg af valgancíklóvírhýdróklóríði samsvarandi 450 mg af valgancíklóvíri. Lyfið er ætlað til upphafs- og viðhaldsmeðferðar á cýtómegalóveiru (CMV) sjónubólgu hjá fullorðnum sjúklingum með alnæmi (AIDS). Einnig er það ætlað til varnar gegn cýtómegalóveirusjúkdómi hjá fullorðnum sjúklingum og börnum (frá fæðingu til 18 ára aldurs) sem ekki hafa CMV en hafa fengið líffæraígræðslu frá CMV-sýktum líffæragjafa. Lyfið er samheitalyf lyfsins Valcyte og er lyfseðilsskylt.

VaxigripTetra, stungulyf, dreifa í áfylltri sprautu. Lyfið er fjórgilt inflúensubóluefni sem er ræktað í frjóvguðum hænueggjum í heilbrigðum hænsnahópum. Lyfið getur innihaldið leifar af eggjum, eins og eggjahvítu og einnig neómýsín, formaldehýð og októxýnól-9 sem eru notuð við framleiðsluna. Vaxigrip Tetra er ætlað til að fyrirbyggja inflúensusjúkdóm af völdum tveggja undirgerða af inflúensu A veiru og tveggja gerða af inflúensu B veiru sem bóluefnið inniheldur. Lyfið er ætlað sem: -virk bólusetningu fullorðinna, þ.á.m. þungaðra kvenna, og barna frá 6 mánaða aldri og eldri. –aðfengin vörn ungbarns/ungbarna frá fæðingu til minna en eða jafnt og 6 mánaða að aldri eftir bólusetningu þungaðra kvenna. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Nýtt lyfjaform

Xeljanz, forðatöflur. Hver forðatafla inniheldur tofacitinibsítrat, samsvarandi 11 mg af tofacitinibi. Lyfið inniheldur u.þ.b. 152 mg af sorbítóli í hverri forðatöflu. Tofacitinib notað samhliða metótrexati (MTX), er ætlað til meðferðar við miðlungi alvarlegri eða alvarlegri virkri iktsýki hjá fullorðnum sjúklingum sem hafa ekki svarað nægilega vel eða hafa óþol fyrir einu eða fleirum sjúkdómstemprandi gigtarlyfjum. Tofacitinib má gefa í einlyfjameðferð ef um er að ræða óþol fyrir MTX eða þegar meðferð með MTX er ekki viðeigandi. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í gigtarlækningum, meltingarlækningum og ónæmisfræði. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Nýr styrkleiki

Voltaren Forte, hlaup. Eitt gramm af Voltaren Forte inniheldur 23,2 mg díklófenaktvíetýlamíni (2,32%) sem jafngildir 20 mg af díklófenaknatríum. Lyfið inniheldur 50 mg própýlenglýkól og 0,2 mg bútýlhýdroxýtólúen. Própýlenglýkól getur valdið húðertingu og bútýlhýdroxýtólúen getur valdið staðbundnum húðviðbrögðum (t.d. snertihúðbólgu) eða ertingu í auga og slímhúðum. Lyfið er notað við staðbundnum bólgukvillum hjá fullorðnum og börnum 14 ára og eldri. Lyfið er frumlyf og er lausasölulyf.

Ný dýralyf

Prevomax, 10 mg/ml stungulyf, lausn fyrir hunda og ketti. Einn ml inniheldur 10 mg marópítant. Lyfið er gefið hundum: -til meðferðar og til að koma í veg fyrir ógleði af völdum krabbameinslyfjameðferðar, –til að koma í veg fyrir uppköst, nema af völdum ferðaveiki, –til meðferðar á uppköstum ásamt annarri stuðningsmeðferð og til að koma í veg fyrir ógleði og uppköst í tengslum við aðgerð og flýta bata eftir svæfingu eftir notkun μ-ópíóðviðtakaörvans morfíns. Lyfið er gefið köttum: -til að koma í veg fyrir uppköst og draga úr ógleði, nema af völdum ferðaveiki og til meðferðar við uppköstum, ásamt annarri stuðningsmeðferð. Lyfið er samheitalyf lyfsins Cerenia og er lyfseðilsskylt.

Sporimune vet., 50 mg/ml mixtúra lausn handa hundum og köttum. Hver ml inniheldur 50 mg ciclosporin. Lyfið er ætlað til meðferðar við langvinnri ofnæmishúðbólgu (e. atopic dermatitis) hjá hundum og til meðferðar á einkennum langvinnrar ofnæmishúðbólgu (e. allergic dermatitis) hjá köttum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Atopica og er lyfseðilsskylt.

Síðast uppfært: 29. október 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat