Ný lyf á markað í apríl 2023

Samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. apríl 2023

Í apríl komu 13 ný lyf fyrir menn á íslenskan markað. Þau tilheyra 8 mismunandi ATC flokkum.

ATC flokkur A - meltingarfæri og efnaskipti

Sitagliptin/Metformin Zentiva filmhúðuð tafla. Lyfið er fáanlegt í tveimur styrkleikum, 50 mg/850 mg og 50 mg/1000 mg. Hver tafla inniheldur sitagliptín hýdróklóríð einhýdrat, sem jafngildir 50 mg af sitagliptín og 850 mg eða 1000 mg af metformín hýdróklóríði. Lyfið er ætlað til meðferðar við sykursýki af tegund 2 fyrir fullorðna sjúklinga þegar ekki næst viðunandi stjórn á blóðsykri. Sitagliptin/Metformin Zentiva er annað hvort notað sér eða með öðrum lyfjum eftir atvikum. Lyfið er samheitalyf Janumet og er lyfseðilsskylt.

ATC flokkur D - húðlyf

Pevaryl (Heilsa) krem. Lyfið inniheldur 1% econazolnítrat og hentar vel til meðferðar við öllum húðsveppasýkingum án tillits til tegundar eða staðsetningar. Pevaryl (Heilsa) fæst í lausasölu.

ATC flokkur J - sýkingalyf til altækrar notkunar

MenQuadfi stungulyf, lausn. Lyfið inniheldur Neisseria meningitidis fjölsykru af sermisgerð A1, C 1, Y1 og W1 sem allar eru samtengdar stífkrampatoxóíðburðarpróteini. 10 míkróg af hverri sermisgerð fjölsykrunnar eru í hverjum 0,5 ml skammti. MenQuadfi er ætlað til virkrar ónæmingar hjá einstaklingum 12 mánaða og eldri við ífarandi meningókokkasjúkdómi af völdum Neisseria meningitidis semisgerðum A, C, W og Y. ▼Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila. MenQuadfi er frumlyf og er það lyfseðilsskylt.

Livtencity filmuhúðuð tafla. Hver tafla inniheldur 200 mg maribavir. Lyfið er ætlað til meðferðar við sýkingu af völdum cýtómegalóveiru (CMV) og/eða sjúkdómi sem hefur ekki svarað einni eða fleiri fyrri meðferðum hjá fullorðnum sjúklingum sem hafa gengist undir ígræðslu blóðmyndandi stofnfrumna eða líffæraígræðslu. ▼Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila. Livtencity er frumlyf og lyfseðilsskylt.

ATC flokkur L - æxlishemjandi lyf og lyf til ónæmistemprunar

Pirfenidone axunio filmuhúðuð tafla. Lyfið fæst í tveimur styrkleikum, 267 mg og 801 mg. Hver tafla inniheldur samsvarandi magn af pírfenidóni. Pirfenidone axunio er ætlað til meðferðar við vægri eða miðlungs alvarlegri sjálfvakinni lungnatrefjun. Lyfið er samheitalyf Esbriet og er ávísun þess bundin við sérfræðinga í lungasjúkdómum.

Trodelvy stofn fyrir innrennslisþykkni, lausn. Eitt hettuglas með stofni inniheldur 200 mg af sacituzumab govitecan en eftir blöndun inniheldur hver ml 10 mg af virka efninu. Lyfið er ætlað sem einlyfjameðferð fyrir fullorðna sjúklinga með þríneikvætt brjóstakrabbamein sem er óskurðtækt eða með meinvörpum, og hafa fengið tvær eða fleiri altækar meðferðir áður, þ.á.m. a.m.k. eina meðferð við langt gengnum sjúkdómi.

Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt. Að auki er lyfið H-merkt og er notkun þess þar af leiðandi einungis leyfð á heilbrigðisstofnun þar sem fyrir hendi er nauðsynleg þekking, aðstaða og búnaður sem er forsenda fyrir notkun þess.

ATC flokkur M - stoðkerfi

Nurofen Apelsin (Heilsa) mixtúra, dreifa. Hver ml af mixtúru, dreifu inniheldur 40 mg af íbúprófeni. Nurofen Apelsin er ætlað til skammtímameðferðar við hita og vægum til miðlungs alvarlegum verkjum. Nurofen Apelsin (Heilsa) fæst í lausasölu í 100 ml pakkningu.

Colchicine Tiofarma tafla. Hver tafla inniheldur 0,5 mg af kolsisíni. Lyfið er ætlað fyrir fullorðna við bráðri þvagsýrugigt og sem fyrirbyggjandi meðferð við þvagsýrugigtarkasti við upphaf þvagsýrulækkandi meðferðar. Auk þess er lyfið ætlað til notkunar hjá fullorðnum og börnum með arfgenga miðjarðarhafssótt til fyrirbyggjandi meðferðar við köstum og mýlildum. Markaðsleyfi lyfsins er veitt á þeim forsendum að hefð er fyrir notkun þess. Colchicine Tiofarma er lyfseðilsskylt.

ATC flokkur N - taugakerfi

Methylphenidate Medical Valley forðatafla. Lyfið er fáanlegt í þremur styrkleikum, 18 mg, 27 mg og 36 mg og inniheldur hver forðatafla samsvarandi magn af metýlfenidathýdróklóríði. Methylphenidate Medical Valley er ætlað til notkunar í víðfeðmri meðferð við athyglisbresti með ofvirkni (ADHD) hjá börnum 6 ára og eldri þegar stuðningsúrræði ein og sér nægja ekki. Lyfið er samheitalyf Concerta® og er bæði lyfseðilsskylt og eftirritunarskylt.

ATC flokkur R - öndunarfæri

Alimemazin Evolan dropar til inntöku, lausn. Hver ml af dropum til inntöku inniheldur alimemazintartrat sem samsvarar 40 mg af alimemazini. Lyfið er ætlað fullorðnum og börnum frá 3 ára aldri sem lyfjaforgjöf og sem skammtímameðferð við kláða og ofnæmi. Alimemazin Evolan er samheitalyf Theralen og er lyfseðilsskylt.

Strefen Apelsin (Heilsa) munnsogstafla. Hver tafla inniheldur 8,75 mg flurbiprofen. Strefen Apelsin (Heilsa) er notað til að draga tímabundið úr einkennum óþæginda í hálsi eins og verk, eymslum og bólgu og erfiðleikum við að kyngja hjá fullorðnum og börnum eldri en 12 ára. Strefen Apelsin (Heilsa) er samheitalyf Strefen Orange og er fáanlegt í 16 stk pakkningu í lausasölu.

ATC flokkur S - skynfæri

Livostin (Heilsa) augndropar, dreifa. Hver ml inniheldur levokabastinhýdróklóríð sem samsvarar 0,5 mg af levokabastíni. Livostin augndropar eru andhistamín sem notað er við ofnæmisóþægindum eins og augnroða, þrota í augum, rennsli úr augum og augnkláða af völdum frjókorna eða annarra loftborinna ofnæmisvalda. Heimilt er að selja takmarkað magn lyfsins í lausasölu, mest 4 ml handa einstaklingi.

Oculac (Heilsa) augndropar lausn. Hver ml inniheldur 50 mg povidon K25. Lyfið er notað til að draga úr einkennum augnþurrks. Oculac (Heilsa) fæst í lausasölu. Bæði er hægt að fá lyfið í 10 ml dropaíláti og í pakka sem inniheldur 20 stk af 0,4 ml stakskammtaílátum. Stakskammtaílátin eru án rotvarnar.

Síðast uppfært: 18. apríl 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat