Ný lyf á markað í desember 2022

Samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. desember 2022

Ný lyf á markað í desember

Ný lyf fyrir menn

Brukinsa hörð hylki. Hvert hylki inniheldur 80 mg af zanubrutinib og er ætlað sem einlyfjameðferð hjá fullorðnum sjúklingum með Waldenström risaglóbúlíndreyra sem hafa fegið a.m.k. eina meðferð áður. Einnig er það notað sem fyrsta meðferð hjá sjúklingum þar sem lyfja-ónæmismeðferð á ekki við. Brukinsa er lyfseðilsskylt og er ávísun þess bundin við sérfræðinga í blóðsjúkdómum og krabbameinslækningum.

Erelzi stungulyf, lausn í áfylltri sprautu er fáanlegt í 25 mg og 50 mg skömmtum. Hver áfyllt sprauta inniheldur 25 mg eða 50 mg af etanercept og er ætlað til meðferðar á virkri iktsýki hjá fullorðnum, sjálfvakinni barnaliðagigt hjá börnum og unglingum frá 2 ára aldri, sóragigt hjá fullorðnum, áslægum hryggbólgusjúkdóm hjá fullorðnum og skellupsoriasis hjá bæði fullorðnum og börnum frá 6 ára aldri. Erelzi er samheitalyf Enbrel og er ávísun þess bundin við sérfræðinga í gigtarlækningum, húðsjúkdómum og ónæmisfræði.

Erelzi stungulyf, er einnig fáanlegt sem lausn í áfylltum lyfjapenna sem inniheldur 50 mg af etanercept.

Hyrimoz stungulyf. Lyfið inniheldur 40 mg af adalimumabi og fæst sem lausn í áfylltri sprautu og lausn í áfylltum penna. Lyfið er ætlað sem meðferð við iktsýki, áslægum hryggbólgusjúkdómi, sóraliðabólgu og sóra hjá fullorðnum. Einnig er lyfið ætlað til meðferðar á sjálfvakinni liðagigt hjá börnum, skellusóra hjá unglingum og börnum frá 4 ára aldri auk graftarmyndandi svitakirtlabólgu hjá einstaklingum frá 12 ára aldri. Hyrimoz er einnig hugsað til meðferðar á Crohns sjúkdómi og sáraristilbólgu hjá börnum frá 6 ára aldri og fullorðnum auk æðahjúpsbólgu hjá börnum frá 2 ára aldri og fullorðnum. Hyrimos er samheitalyf Humira og er ávísun þess bundin við sérfræðinga í gigtarlækningum, húðsjúkdómum, meltingarsjúkdómum, gigtarsjúkdómum barna, ónæmisfræði og augnlækningum.

Laxoberal (Heilsa) dropar til inntöku, lausn. Lyfið inniheldur 7,5 mg/ml af virka efninu natríumpicosúlfat. Að auki inniheldur það sorbitól sem hjálparefni. 20 dropar af Laxoberal (Heilsa) innihalda 600 mg af sorbitóli. Laxoberal (Heilsa) er hægðalyf sem notað er við hægðatregðu sem varað hefur í lengri eða skemmri tíma. Lyfið er selt í lausasölu.

Nezeril (Heilsa) nefúði. Lyfið inniheldur 0,5 mg/ml af oximetazolinklóríði og er notað sem skammtímameðferð við nefstíflu vegna kvefs. Nezeril (Heilsa) er lausasölulyf.

Nicorette Quickmist (Heilsa) munnholsúði, lausn. Lyfið inniheldur 1 mg af nikótíni í hverjum úða. Nicorette Quickmist (Heilsa) er notað sem hjálparmeðal til að halda reykbindindi, þegar fólk er að reyna að hætta eða að draga úr reykingum áður en þeim er alveg hætt með því að draga úr fráhvarfseinkennum nikótíns. Nicorette Quickmist (Heilsa) er lausasölulyf.

Nicotinell Fruit (Heilsa) lyfjatyggigúmmí. Hvert tyggigúmmí inniheldur 2 mg af nikótíni sem samsvara 10 mg af nikótínpólacrillíni. Tyggigúmmíið er notað til að draga úr nikótínþörf og fráhvarfseinkennum nikótíns hjá einstaklingum sem eru háðir nikótíni. Lyfið er selt í lausasölu.

Remsima stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna. Lyfið inniheldur 120 mg af infliximabi í hverjum lyfjapenna. Remsima er ætlað fullorðnum einstaklingum til meðferðar á iktsýki, Crohns sjúkdómi, sáraristilbólgu, hryggikt, sóraliðagigt og sóra. Remsima er samheitalyf Remicade og er lyfseðilsskylt. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í gigtarlækningum, húðsjúkdómum og meltingarsjúkdómum.

Sitagliptin/Metformin Medical Valley filmuhúðaðar töflur. Lyfið fæst í 50 mg/850 mg skammti og 50 mg/1000 mg skammti og inniheldur hver tafla 50 mg af sitagliptín hýdróklóríð auk 850 mg eða 1000 mg af metformín hýdróklóríði. Sitagliptin Metformin Medical Valley er ætlað fullorðnum einstaklingum með sykursýki af tegund 2 til að bæta stjórn á blóðsykri eitt og sér eða sem hluti af þríþættri meðferð með öðrum lyfjum. Lyfið er samheitalyf Janumet og er lyfseðilsskylt.

Vildagliptin/Metformin Krka filmuhúðaðar töflur. Töflurnar fást í 50 mg/850 mg skammti og 50 mg/1000 mg skammti. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 5 mg af vildagliptíni og 850 mg eða 1000 mg af metformínhýdróklóríði. Vildagliptin/Metformin Krka er ætlað sem viðbót við mataræði og hreyfingu til að bæta blóðsykursstjórnun hjá fullorðnum með sykursýki af tegund 2, eitt og sér eða samhliða öðrum lyfjum. Lyfið er samheitalyf Eucreas og er lyfseðilsskylt.

Nýtt lyf fyrir dýr

Purevax RCP frostþurrkað stungulyf og leysir, dreifa. Hver skammtur af lyfinu inniheldur veiklaðar kattaflensu herpesveirur, óvirkjaða katta caliciveiru mótefnavaka og veiklaðar kattafárs veirur. Lyfinu er ætlað að vekja virka mótefnamyndum hjá köttum sem eru 8 vikna eða eldri gegn kattaflensu, sýkingu að völdum calici veiru og kattafári til að draga úr klínískum einkennum og koma í veg fyrir dauða. Purevax RCP er lyfseðilsskylt.

Ný lyfjaform fyrir menn

Pradaxa húðað kyrni. Hver skammtapoki inniheldur húðað kyrni með 20 mg, 30 mg, 40 mg, 50 mg, 110 mg eða 150 mg af dabigatran etexílati (sem mesílat). Lyfið er ætlað sem meðferð við segum og segareki í bláæðum (VTE) og forvörn gegn endurteknum segum og segareki í bláæðum hjá börnum frá fæðingu fram að 18 ára aldri. Pradaxa er lyfseðilsskylt og bundið við notkun á sjúkrahúsum eða öðrum heilbrigðisstofnun. Dabigatran etexílat var þegar markaðssett í Pradaxa hörðum hylkjum. Hylkin eru fáanleg í 75 mg, 110 mg og 150 mg sem meðferð við sömu kvillum og Pradaxa húðað kyrni. Pradaxa hörð hylki eru lyfseðilsskyld.

Testogel hlaup til notkunar um húð. Hver 5 g skammtapoki inniheldur 50 mg af testósteróni. Lyfið er notað sem testósterónuppbótarmeðferð við kynkirtlavanseytingu hjá karlmönnum, þegar skortur á testósteróni hefur verið staðfestur samkvæmt klínískum einkennum og lífefnafræðilegum prófum. Testogel er lyfseðilsskylt. Testósterón var þegar fáanlegt sem stungulyfið Nebido. Lyfið er notað sem testósterónuppbót fyrir fullorðna karlmenn til að meðhöndla ýmsa heilsutengda kvilla af völdum skorts á testósteróni. Nebido er lyfseðilsskylt.

Síðast uppfært: 13. desember 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat