Ný lyf á markað í nóvember

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. nóvember 2021

Ný lyf á markað 1. nóvember 2021.

Ný lyf fyrir menn

Alendronat Teva, töflur. Hver tafla inniheldur 70 mg af alendrónsýru, sem samsvarar 81,2 mg af alendrónatnatríumeinhýdrati. Lyfið er notað sem meðferð við beinþynningu eftir tíðahvörf. Alendrónsýra dregur úr hættu á samfalli hryggjarliða og mjaðmarbrotum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Fosamax Ugetablet og er lyfseðilskylt.

Aprepitant STADA, hörð hylki í pakkningu með tveim styrkleikum, 80 mg og 125 mg. Hvert hart hylki inniheldur annars vegar 80 mg eða 125 mg af aprepitanti. Lyfið er notað til að fyrirbyggja ógleði og uppköst í tengslum við krabbameinslyfjameðferð sem er afar og miðlungs uppsöluvaldandi hjá fullorðnum og unglingum frá 12 ára aldri. Auk þess er lyfið gefið sem hluti af samsettri meðferð. Lyfið er samheitalyf lyfsins Emend og er lyfseðilskylt.

Eslicarbazepine acetate STADA, töflur í tveimur styrkleikum, 200 mg og 800 mg. Hver tafla inniheldur 200 mg eða 800 mg af eslicarbazepin asetati. Lyfið er notað sem einlyfjameðferð við staðbundnum hlutaflogum, með eða án síðkominna krampaalfloga hjá fullorðnum með nýgreinda flogaveiki og sem viðbótarmeðferð hjá fullorðnum, unglingum og börnum eldri en 6 ára, með staðbundin hlutaflog, með eða án síðkominna krampaalfloga. Lyfið er samheitalyf lyfsins Zebinix og er lyfseðilskylt.

Pazenir, innrennslislyf, ördreifa. Hvert hettuglas inniheldur 100 mg af paclitaxeli á formi albúmínbundinna nanóagna. Eftir blöndun inniheldur hver ml af ördreifu 5 mg af paclitaxeli á formi albúmínbundinna nanóagna. Lyfið er ætlað sem einlyfjameðferð til meðferðar á brjóstakrabbameini með meinvörpum hjá fullorðnum sjúklingum sem hafa ekki svarað fyrsta meðferðarvalkosti við sjúkdómi með meinvörpum og þar sem hefðbundin meðferð sem inniheldur antracýklín hentar ekki. Einnig er lyfið ætlað til meðferðar í samsettri meðferð með gemcítabíni sem fyrsti valkostur fyrir fullorðna sjúklinga með kirtilfrumukrabbamein í brisi ásamt meinvörpum. Pazenir í samsettri meðferð með karbóplatíni er ætlað til meðferðar sem fyrsti valkostur við lungnakrabbameini sem ekki er af smáfrumugerð hjá fullorðnum sjúklingum þar sem hugsanleg lækning með skurðaðgerð og/eða geislameðferð kemur ekki til greina. Lyfið er sjúkrahúslyf, er samheitalyf lyfsins Abraxane og er lyfseðilskylt.

Thiotepa Riemser, stofn fyrir innrennslisþykkni, lausn. Lyfið er fáanlegt í tveimur stærðum, 15 mg og 100 mg. Eitt hettuglas inniheldur 15 mg eða 100 mg af thiotepa og eftir blöndun í 1,5 ml eða 10 ml af vatni fyrir stungulyf inniheldur hver ml af lausn 10 mg af thiotepa (10 mg/ml). Lyfið er ætlað til meðferðar við krabbameini, samhliða öðrum krabbameinslyfjum:

  • Með eða án heilgeislunar (TBI), sem undirbúningsmeðferð (e. conditioning treatment) fyrir ígræðslu ósamgena eða samgena blóðmyndandi stofnfrumna (HPCT), þegar um er að ræða blóðsjúkdóma hjá fullorðnum og börnum.
  • Þegar háskammta krabbameinslyfjameðferð með stuðningi ígræðslu blóðmyndandi stofnfrumna er viðeigandi til meðferðar við krabbameinsæxlum hjá fullorðnum og börnum.

Lyfið er sjúkrahúslyf, er samheitalyf lyfsins Tepadina og er lyfseðilskylt.

Ný lyfjaform

Dupixent, stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna. Hver áfylltur lyfjapenni inniheldur 200 mg í 1,14 ml lausn eða 300 mg af dupilumabi í 2 ml af lausn. Dupilumab er einstofna mannamótefni gegn interleukin (IL)-4 viðtaka alfa sem hamlar IL-4/IL-13 merkjagjöf, framleitt í eggjastokkafrumum kínahamstra (CHO) með DNA raðbrigðaerfðatækni.

Báðir styrkleikar lyfsins er ætlaðir til meðferðar við eftirfarandi:

  • Bráðaofnæmishúðbólgu: Lyfið er ætlað til meðferðar við miðlungsmikilli til alvarlegri bráðaofnæmishúðbólgu (atopic dermatitis) hjá fullorðnum og unglingum 12 ára og eldri þegar altæk meðferð kemur til greina. Einnig er lyfið ætlað til meðferðar við alvarlegri bráðaofnæmishúðbólgu hjá börnum 6 til 11 ára þegar altæk meðferð kemur til greina.
  • Astma: Lyfið er ætlað sem viðbótarmeðferð við svæsnum astma með bólgu af tegund 2 sem einkennist af fjölgun eósínfíkla í blóði og/eða hækkun hlutfalls nituroxíðs í útöndunarlofti hjá fullorðnum og unglingum 12 ára og eldri, þegar fullnægjandi stjórnun er ekki náð með stórum skammti af innöndunarstera auk annars lyfs sem viðhaldsmeðferð.

300 mg styrkleiki Dupixent er einnig ætlaður til meðferðar við eftirfarandi:

  • Langvinnri nef- og skútabólgu með sepageri í nefi (CRSwNP): Dupixent er ætlað sem viðbótarmeðferð ásamt barksterum gefnum í nef við meðferð fullorðinna með svæsna CRSwNP hjá þeim sem meðferð með altækum barksterum og/eða skurðaðgerð veitir ekki fullnægjandi stjórn á sjúkdómnum.

Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í ofnæmis- og lungnasjúkdómum og sérfræðinga í húðsjúkdómum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilskylt.

Pemetrexed Accord, innrennslisþykkni, lausn. Einn ml af innrennslisþykkni inniheldur pemetrexed dínatríum hemipentahýdrat sem jafngildir 25 mg af pemetrexedi. Eitt hettuglas með 20 ml af innrennslisþykkni inniheldur pemetrexed dínatríum hemipentahýdrat sem jafngildir 500 mg af pemetrexedi. Lyfið er ætlað til meðferðar við mismunandi tegundum krabbameins, m.a. illkynja miðþekjuæxlis (e. mesothelioma) í brjósthimnu og lungnakrabbameini sem er ekki af smáfrumugerð (e. Non-small cell lung cancer). Lyfið er sjúkrahúslyf, er samheitalyf lyfsins Alimta og er lyfseðilskylt.

Tysabri, stungulyf, lausn í áfylltri sprautu. Hver ml inniheldur 150 mg af natalízúmabi. Natalízúmab er raðbrigða mannaaðlagað and-α4-integrín mótefni sem framleitt er í frumulínu úr músum með samruna DNA tækni. Lyfið er notað sem sjúkdómstemprandi einlyfjameðferð hjá fullorðnum einstaklingum í eftirfarandi sjúklingahópum með afar virka gerð af MS-sjúkdómi með köstum og bata á milli:

  • Sjúklingum með afar virkan sjúkdóm þrátt fyrir heila og fullnægjandi meðferðarlotu með að minnsta kosti einni sjúkdómstemprandi meðferð (e. disease modifying therapy (DMT)).
  • Sjúklingum með alvarlegan MS-sjúkdóm með köstum og bata á milli sem versnar hratt og markast af 2 eða fleiri köstum sem valda fötlun á einu ári, og með eina eða fleiri meinsemdir sem hlaða upp gadólíníum við segulómun á höfði eða marktæka aukningu á hleðslu meinsemdar á T2 samanborið við nýlega segulómun.

Lyfið er sjúkrahúslyf, er frumlyf og lyfseðilsskylt.

Xarelto, mixtúrukyrni, dreifa. Hvert glas inniheldur 51,7 mg eða 103,4 mg af rivaroxabani. Eftir blöndun inniheldur mixtúra, dreifa 1 mg af rivaroxabani í hverjum ml. Lyfið er ætlað sem meðferð við bláæðasegareki og fyrirbyggjandi meðferð við endurteknu bláæðasegareki hjá fullburða nýburum, ungbörnum, smábörnum, börnum og unglingum yngri en 18 ára eftir a.m.k. 5 daga upphafs segavarnarmeðferð með stungulyfi. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Síðast uppfært: 18. nóvember 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat