Ný sérlyfjaskrá kynnt á Læknadögum

Í nýrri sérlyfjaskrá er að finna fleiri upplýsingar en í fyrri útgáfu, þar á meðal um lyfjaskort, og hægt er að sjá verðsamanburð sambærilegra lyfja. Læknar Lyfjastofnunar tóku þátt í dagskrá Læknadaga

Læknadagar 2023 fóru fram dagana 16.-20. janúar sl. en á viðburðinum bauðst læknum að hlýða á margvísleg erindi tengd fræðunum og starfi þeirra. Lyfjastofnun hafði aðstöðu á afmörkuðu ráðstefnusvæðinu eins og verið hafði á árunum fyrir heimsfaraldur COVID-19. Þessi vettvangur hefur verið nýttur til að kynna fyrir læknum það sem snertir þá beint hvað varðar verkferla og það sem ber hæst hverju sinni í verkefnum stofnunarinnar.

Læknar Lyfjastofnunar tóku þátt í dagskrá Læknadaga

Hrefna Guðmundsdóttir er yfirlæknir Lyfjastofnunar og sérfræðingur í nýrnasjúkdómum. Hún var annar tveggja fundarstjóra í dagskránni Nýru og lyf þar sem meðal annars var fjallað um ný lyf við nýrnasjúkdómum, og líftæknilyf og nýru. -Undir liðnum Lyf og meltingarvegurinn flutti Sif Ormarsdóttir erindið Aukaverkanir lyfja á vélinda, maga, görn og bris, en Sif starfar sem meltingarlæknir auk þess að vinna á Lyfjastofnun.

Ný sérlyfjaskrá tekin í notkun í byrjun árs

Sérlyfjaskráin er vefur sem læknar nýta sér (nánast) á hverjum degi. Þar finna þeir nauðsynlegar upplýsingar um lyfið sem til stendur að ávísa, um ábendingar og frábendingar, aukaverkanir o.fl. Nýja sérlyfjaskráin býður upp á enn betri upplýsingar en sú gamla, m.a. upplýsingar hvort lyfið skortir, og verðsamanburð lyfs og sambærilegra lyfja. -Á þessu vöktu starfsmenn Lyfjastofnunar athygli á viðburðinum og sýndu hvaða leiðir hentuðu best til að finna tilteknar upplýsingar.

Happdrættisþraut – leitað í sérlyfjaskránni

Til gamans var útbúin lítil þraut sem viðstöddum bauðst að leysa og leggja inn í happdrættispott, en dregið var úr réttum svörum að ráðstefnunni lokinni. Þrautin var í þremur liðum og fólst í að viðkomandi þurfti að leita að tilteknu atriði í sérlyfjaskránni og velja úr þremur svarmöguleikum. Þetta þótti skemmtileg leið til að kynna sér nýja sérlyfjaskrá.

Eftirlit með lyfjaauglýsingum

Lyfjafyrirtæki hafa jafnan viðdvöl á afmörkuðu ráðstefnusvæði Læknadaga. Þar kynna þau og auglýsa lyf sín. Lögum samkvæmt skal Lyfjastofnun hafa eftirlit með lyfjaauglýsingum og var þeirri skyldu sinnt á Læknadögum.

Hrefna Guðmundsdóttir stjórnar málstofu um ný lyf við nýnasjúkdómum.
Sif Ormarsdóttir flytur erindi sitt um aukaverkanir lyfja á vélinda, maga, görn og bris.
Erla Hlín Henrysdóttir og Gunnar Alexander Ólafsson við bás Lyfjastofnunar á Læknadögum 2023
Síðast uppfært: 14. febrúar 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat