Nýr sérlyfjaskrárvefur

Vefurinn hefur verið endurhannaður til að þjóna betur þörfum notenda

Sérlyfjaskrá með nýju sniði verður gefin út í dag. Vefurinn hefur verið endurhannaður þannig að hann þjóni betur notendum snjalltækja. Ný sérlyfjaskrá verður með öflugri leitarvél og í henni birtast fleiri upplýsingar en áður.

Sem fyrr geymir sérlyfjaskráin upplýsingar um markaðssett lyf á Íslandi og nær þ.a.l. ekki til undanþágulyfja. Ekki stendur til að bæta við upplýsingum um undanþágulyf í sérlyfjaskrá í framtíðinni.

Fleiri upplýsingar

Í nýrri sérlyfjaskrá birtast fleiri upplýsingar en í fyrri útgáfu. Meðal þess sem nýtt er má nefna frekari upplýsingar um markaðsleyfi lyfs, upplýsingar um tilkynntan lyfjaskort, sambærileg lyf í sama viðmiðunarverðflokki og verð þeirra.

Upplýsingar um markaðsleyfi lyfs varða markaðsleyfisnúmer lyfsins, útgáfudagsetningu markaðsleyfis og upplýsingar um hvenær lyfið var markaðssett á Íslandi.

Lyfjastofnun birtir nú þegar lista yfir tilkynntan lyfjaskort á lyfjastofnun.is og verður sá listi nú einnig aðgengilegur í sérlyfjaskrá. Þær pakkningar sem tilkynnt hefur verið um að skorti, verða sérstaklega auðkenndar með upplýsingum um ástæðu lyfjaskortsins og ráðleggingum til heilbrigðisstarfsmanna og lyfjanotenda. Upplýsingar um tilkynntan lyfjaskort varða skort sem er yfirstandandi; ekki verða birtar upplýsingar um skort sem er yfirstaðinn.

Á lyfjaspjaldi þeirra lyfja þar sem sambærileg lyf eru fáanleg birtast upplýsingar um þrjú ódýrustu sambærilegu lyfin og verð þeirra. Þær pakkningar sem eru ódýrastar fá sérstaka merkingu þar um.

Öflugri leitarvél

Leitarvélin í hinni endurútgefnu sérlyfjaskrá er öflugri en í þeirri fyrri og býður upp á ítarlega síunarmöguleika. Þannig er hægt að taka út ýmiskonar lista lyfja eftir því hvaða síunarskilyrði eru valin.

Upplýsingafundur 15. desember

Boðið verður upp á upplýsingafund 15. desember nk. á Teams þar sem ný virkni sérlyfjaskrárinnar og möguleikar verða kynntir. Færi gefst einnig til að spyrja spurninga eftir kynningu. Fundurinn verður tekinn upp og gerður aðgengilegur tímabundið eftir á fyrir þá sem ekki hafa tök á að fylgjast með á fundartíma.

Fundurinn hefst kl. 8:15 og lýkur u.þ.b. 9:00.

Hlekkur á Teams fundinn.

Ábendingar velkomnar

Tekið er við öllum ábendingum um nýja sérlyfjaskrá á netfangið [email protected]

Síðast uppfært: 12. desember 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat