Nýtt frá CHMP – febrúar 2021

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um lyf fyrir menn (CHMP) hélt fjarfund dagana 22.-25. febrúar sl. Mælt var með að sex lyf fengju markaðsleyfi, þar á meðal lyf til inntöku við SMA. Þá var fjallað um viðbótarábendingar fyrir sex lyf, og tvö lyf voru endurmetin; annað þeirra er REGN-COV2 við COVID-19

Eitt af lyfjunum sem mælt var með að fengi markaðsleyfi er Evrysdi (risdiplam), en það er fyrsta lyfið við mænuvöðvarýnun (spinal muscular atrophy, SMA) sem ætlað er til inntöku. Um er að ræða sjaldgæfan, arfgengan sjúkdóm, sem veldur kraftleysi í vöðvum og sívaxandi lömun, og er oft banvænn. Lyfið fékk flýtimeðferð í meðförum EMA samkvæmt svokallaðri PRIME áætlun, en hún miðar að því flýta umfjöllun um lyf í tilvikum sjúkdóma þar sem fá úrræði standa til boða, eða betri lausna er þörf. Þrátt fyrir að ýmsar leiðir í meðferð við sjúkdómnum hafi komið fram á síðustu árum, hafa þær allar falið í sér heimsóknir til lækna eða inngripsaðgerðir. Lyf til inntöku er því mikil framför fyrir þennan sjúklingahóp þar sem sjúklingar munu eiga auðveldara með að fá meðferð en áður. -Sérstaklega er fjallað um Evrysdi á vef EMA.-

Sérfræðinganefndin mælti með skilyrtu markaðsleyfi fyrir Jemperli (dostarlimab), lyfi til meðferðar við ákveðnum tegundum legbolskrabbameins (endometrial cancer).

Orladeyo (berotralstat) hlaut jákvæða umsögn sérfræðinganefndarinnar, það er lyf sem ætlað er að koma í veg fyrir arfgengan ofsabjúg (hereditary angioedema).

Tvær líftæknilyfshliðstæður, Abevmy (bevacizumab) og Lextemy (bevacizumab), fengu jákvæða umsögn. Lyfin eru við ýmsum tegundum krabbameina, m.a. krabbameini í ristli, brjóstakrabbameini og leghálskrabbameini.

Þá mælti CHMP með markaðsleyfi fyrir samheitalyfið Abiraterone Accord (abiraterone), lyf til að meðhöndla meinvörp í blöðruhálskirtli.

Fjallað um viðbótarábendingar

Sérfræðinganefndin mælti með viðbótarábendingum fyrir lyfin Cabometyx, Epidyolex, Opdivo, Quofenix og Sarclisa.

Hins vegar var mælt gegn því að lyfin Elebrato Ellipta, Temybric Ellipta og Trelegy Ellipta fengju ábendingu sem meðferð við astma.

Tvö lyf endurmetin

CHMP lauk endurmati á bóluefninu Varilrix sem er vörn gegn hlaupabólu. Mælt var með að leiðbeiningum um lyfjagjöf yrði breytt í þá veru að samræma notkunaraðferð lyfsins á EES svæðinu.

Einnig lauk nefndin umfjöllun um tvö einstofna mótefni, casirivimab og imdevimab, sem saman eru þekkt undir heitinu REGN-COV2. Endurmatið fór fram til að veita samræmt vísindalegt álit innan EVrópu, sem aðildarlönd gætu nýtt sér áður en lyfið fær markaðsleyfi. Niðurstaðan er sú að hægt sé að nota REGN-COV2 til meðferðar hjá þeim COVID-19 sjúklingum sem ekki þurfa á súrefnisgjöf að halda, en hefur hrakað og gætu átt á hættu að veikjast alvarlega.

Leiðbeiningar vegna stökkbreyttra afbrigða SARS-CoV-2 veirunnar

EMA hefur birt leiðbeiningar um hvaða gögn og rannsóknir þurfi til að styðja við breytingar á bóluefnum sem nú þegar hafa verið þróuð. Leiðbeiningarnar snúa að þeim breytingum sem nauðsynlegar eru, til að bóluefnin geti veitt vernd gegn þeim stökkbreyttu afbrigðum veirunnar sem þegar hafa komið fram, og öðrum sem kunna að koma fram síðar.

Tilraunaverkefni um samráð við sjúklinga

CHMP hefur hleypt af stokkunum tilraunaverkefni sem miðar að auknu samráði við sjúklinga þegar metnar eru forsendur þess að mælt sé með markaðsleyfi fyrir svokölluð orphan-lyf, en það eru lyf sem ætluð eru sem meðferð við sjaldgæfum sjúkdómum. Leitað verður eftir áliti sjúklinganna um hverju er ábótavant í meðferð við sjúkdómnum, og um lífsgæði í tengslum við meðferðina. Verkefnið mun standa yfir í eitt ár.

Nánar í frétt á vef EMA

Dagskrá CHMP fundar í febrúar

Síðast uppfært: 22. mars 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat