Nýtt frá CHMP – janúar 2021

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um lyf fyrir menn (CHMP) hélt fjarfund dagana 25.-29. janúar sl. Mælt var með að þrettán lyf fengju markaðsleyfi og þrjú lyf fengju viðbótarábendingar.

Frumlyf

Nefndin mælti með útgáfu skilyrts markaðsleyfis fyrir bóluefnið COVID-19 Vaccine AstraZeneca (COVID-19 Vaccine (ChAdOx1-S [recombinant]) til varnar COVID-19 hjá einstaklingum 18 ára og eldri. Var það þriðja bóluefnið sem nefndin mælti með að fengi slíkt leyfi.

Mælt var með að lyfin Seffalair Spiromax (salmeterol/fluticasone) og BroPair Spiromax (salmeterol/fluticasone) hlytu markaðsleyfi til meðferðar astma hjá einstaklingum frá 12 ára aldri.

Byfavo (remimazolam) hlaut jákvæða umsögn nefndarinnar til slævingar við aðgerðir (e. procedural sedation).

Kesimpta (ofatumumab) hlaut meðmæli nefndarinnar til meðferðar virks heila- og mænusiggs með hléum hjá fullorðnum (e. active relapsing forms of multiple sclerosis).

Mælst var til veitingar skilyrts markaðsleyfis fyrir Nexpovio (selinexor) til meðferðar endurkomins og þráláts mergæxlis (e. relapsed and refractory multiple myeloma).

Ontozry (cenobamate) hlaut jákvæða umsögn nefndarinnar til meðferðar flogaveiki þegar stjórn á sjúkdómnum hefur ekki náðst þrátt fyrir að tvö flogaveikilyf hafi áður verið reynd.

Nefndin mælti með útgáfu skilyrts markaðsleyfis fyrir Pemazyre (pemigatinib) sem aðra lyfjameðferð (e. second-line) við krabbameini í gallrás, sem er langt gengið eða með meinvörpum og einkennist af samruna eða breyttri röð vaxtarþáttarviðtaka trefjakímfruma af gerð 2 (e. characterized by fusion or rearrangements of fibroblast growth factor receptor 2).

Sogroya (somapacitan) hlaut jákvæða umsögn til meðferðar skorts á vaxtarhormóni hjá fullorðnum.

Nefndin mælti með að Vazkepa (icosapent ethyl) hlyti markaðsleyfi til að minnka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum hjá einstaklingum í mikilli áhættu.

Líftæknilyfshliðstæður og samheitalyf

Mælt var með markaðsleyfi fyrir líftæknilyfjahliðstæðurnar Alymsys og Oyavas sem báðar innihalda bevacizumab.

Samheitalyfið Thiotepa Riemser (thiotepa) hlaut jákvæða umsögn nefndarinnar.

Viðbótarábendingar

Mælt var með viðbótarábendingum fyrir þrjú lyf; Keytruda, Sirturo og Vaxchora.

Nánar í frétt á vef EMA

Síðast uppfært: 24. febrúar 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat