Nýtt frá PRAC – apríl 2018

Sérfræðinefnd EMA um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) hefur hafið rannsókn á tilvikum þar sem mistök hafa orðið við skömmtun metótrexats (methotrexate). Lyfið er notað við ýmsum krabbameinum sem og sumum gigtarsjúkdómum. Það er ýmist ætlað til inntöku eða gefið með sprautu. Við gigt er metótrexat að jafnaði gefið einu sinni í viku, en gegn sumum tegundum krabbameins eru skammtarnir sterkari og lyfið notað tíðar. Hættan á mistökum við skömmtun metótrexats hefur verið þekkt um nokkurra ára skeið. Komið hefur upp að sjúklingum sem áttu að fá lyfið vikulega hefur verið gefið það daglega, stundum með alvarlegum alfleiðingum. Nýlega hafa komið upp alvarleg tilvik vegna mistaka við skömmtun metótrexats og PRAC mun rannsaka hvað gæti valdið endurteknum mistökum af þessu tagi og finni leiðir til að koma í veg fyrir þau.

Í janúar síðastliðnum lagði PRAC til að lyf sem innihalda hýdroxyetýlsterkju (HES) yrðu tekin af markaði. Lyf af þessu tagi eru notuð til að koma í veg fyrir lost í kjölfar mikillar blæðingar, þegar meðferð með kristallslíki (e. crystalloids) er ekki talin fullnægjandi. Tilmælin voru lögð fram í kjölfar tveggja rannsókna sem bentu til að HES-lyf væru enn notuð við meðhöndlun sjúklinga þar sem sérstakrar varúðar er þörf, svo sem sjúklinga með blóðeitrun (e. sepsis) og nýrnasjúkdóma. Í framhaldi af þeim tilmælum hefur Framkvæmdastjórn ESB óskað eftir mati PRAC á því hvort brotthvarf lyfja af þessum toga muni skapa vanda, og hvort hins vegar væri hægt að finna fleiri leiðir til að draga úr áhættu við notkun lyfsins. 

Frétt EMA um PRAC-fundinn í apríl

Dagskrá PRAC-fundar í apríl

Síðast uppfært: 18. apríl 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat