Ólögleg sala verkjalyfja – lögregla telur lyfjalöggjöf takmarka möguleika til aðgerða

Skýrsla Ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi var birt í síðustu viku, staða mála eins og hún blasir við árið 2017. Þar er m.a. fjallað um fíkniefni; sölu, dreifingu, tegundir og neyslu. Óhætt er að segja að skýrsluhöfundar séu ómyrkir í máli hvað fíkniheiminn varðar.

Skýrsla segir fíkniefnaneyslu aldrei meiri en nú

Skýrsluhöfundar fullyrða að fíkniefnaneysla hafi aldrei verið meiri hér á landi en nú um stundir. Talið er að rekja megi mikla neyslu m.a. til betra efnahagsástands, nýrra söluleiða gegnum samfélagsmiðla og fjölgunar ferðamanna. Jákvæð umræða um fíkniefni geti einnig orðið til að fjölga neytendum. Undirstrikað er að allt samfélagið verði að bregðast við þeirri vá sem af fíkniefnum stafar.

Sala sterkra verkjalyfja og stera fari í auknum mæli fram á samfélagsmiðlum

Í skýrslunni er sérstaklega rætt um sterk verkjalyf og stera, og sagt að borið hafi á miklu framboði slíkra lyfja. Salan fari einkum fram í lokuðum hópum á Facebook. Samkvæmt upplýsingum frá greiningardeild Ríkislögreglustjóra hefur aukin yfirsýn lækna fækkað möguleikum til að misnota lyfjaávísanir. Er þar átt við hina svokölluðu lyfseðlagátt sem læknum var veittur aðgangur að sem sýnir lyfjaávísanir í rauntíma. Í kjölfarið hafi færst í aukana að reynt sé að smygla sterkum verkjalyfjum erlendis frá með pósti.

Lögreglan telur erfitt að taka á ólöglegri sölu lyfseðilsskyldra lyfja

Fram kemur í skýrslunni að sá hluti fíknimálanna sem snýr að lyfseðilsskyldum lyfjum sé lögreglu jafnvel enn erfiðari viðfangs en önnur vímuefnamál, þar sem hann heyrir undir lyfjalöggjöf. Það er mat lögreglunnar að þrengri refsirammi lyfjalaga geri að verkum að sértæk úrræði til rannsóknar séu ekki til staðar í sama mæli og t.d. í fíkniefnalöggjöfinni. Þetta geri lögreglunni erfiðara um vik að taka á ólöglegri sölu lyfseðilsskyldra lyfja. Því sé áhætta af sölu og dreifingu óveruleg.

Lyfjastofnun fer í aðgerðir til að hamla gegn misnotkun eftirritunarskyldra lyfja

Greint hefur verið frá þeim fyrirætlunum Lyfjastofnunar um aðgerðir til að hamla gegn misnotkun eftirritunarskyldra lyfja. Lyfjastofnun hefur boðað að takmarka það magn sem ávísa má af ávana- og fíknilyfjum þannig að ávísun þeirra takmarkist við tilgreint hámarksmagn hvers lyfs. Með því telur Lyfjastofnun að draga megi úr heildarmagni lyfjanna sem er í umferð hverju sinni og þannig sé a.m.k. hægt að draga úr áðurnefndri misnotkun. Óskað var nýverið eftir umsögnum um boðaðar aðgerðir og og stendur nú yfir vinna við að yfirfara þær ásamt því sem fundað hefur verið með fagaðilum. Hjá Lyfjastofnun er nú í undirbúningi nánari útfærsla á þessum aðgerðum að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem fram hafa komið.

Hér má lesa skýrslu Ríkislögreglustjóra, Skipulögð glæpastarfsemi 2017

Sjá einnig: Sala lyfja á samfélagsmiðlum og söluvefjum á netinu óheimil

Síðast uppfært: 30. október 2017
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat